NINJUTSU: LIFANDI LIST NINJUTSU: LIFANDI LIST

Hamra skal stálið meðan það er heitt og vil ég með þessari grein hefja svokallaðan Pró-ninja áróður sem ætti að veita einhverja innsýn og undirbúa tilvonandi nemendur undir það sem koma skal… Þrátt fyrir fjarvistir mun ég gera hvað ég get til að halda í skefjum undarlegu orðalagi og stafsetningarvillum, en við öðru er ekki að búast þar sem við ninjur erum ósjaldan orðlagðir fyrir afkáranlegar skriftir og hegðan…

SAGA Í SINNI TÍÐ

Sem myndlistamanni hefur mér öðlast sá hæfileiki að sjá heildarímynd jafnt sem smáatriði ýmisskonar og allt annað þar á milli. Hreifingar og form, stíll og eiginleiki hvers og eins… oft á tíðum augljóst, þó höfundur geri sér grein fyrir því að allt á ekki um alla og margt er falið í fyrstu. Hvað gleður augað (og margt annað jafnframt því) er það sem þykir oft stílhreint, góð tækni og kunnátta ásamt góðum anda, en umfram allt og í alla staði; það sem getur breyst og dafnað í gegnum aldirnar óháð meginstraumum og öðru slíku er getur valdið ónáttúrulegum breytingum (hvað er náttúrulegt???).

Í gegnum Ninpo-Taijutsu (Bujinkan Budo Taijutsu) hef ég náð að efla bæði þekkingu sem og ímyndunarafl á flestum sviðum og í öllu því er ég tek mér fyrir hendur. Þannig berjumst við, með kjafti og klóm, en jafnframt því eftir því sem gefið er og þeim breytingum sem gera vart við sig á hverju augnabliki.

Saga ninjunnar er ekki ósvipuð ofangreindu, líf og dauði, eilíf aðlögun og að lokum; gereyðing og endurreisn (Ragnarök). Þeir sem eftir voru tóku sér fyrir hendur að halda á lífi þessari list og þeirri vitneskju sem hafði safnast saman í gegnum aldirnar. Mætti segja að þetta væri ekki ósvipað því að lesa Íslendingasögur með góðri lýsingu ásamt formtækni á hverjum bardaga og væri þá hreinlega hægt að nema td. þær aðferðir sem Gísli Súrsson beitti sér til lífs, í bardögum sem og því sem hann þurfti til að komast lífs af; hvort sem náttúru og veður-tækni (Chimon - Tenmon), leiklist (hensojutsu) og öðru slíku. Þannig hefur listin lifað og borist til okkar hér í Vesturheimi, endurbætt og breytt en samt í anda fornra frægða á erfiðistímum.

Ólíkt öðru því er japanskt er, þá hefur Ninjutsu ætíð þróast samfara sínum tíma (þó oftast bak við tjöldin) og voru forfeðurnir fljótir að grípa byssur, fallbyssur og handsprengjur til að valda usla meðal samuræja sem héldu fast í sverðin sín og blótuðu huglausum skuggamönnum sem forðuðust að falla í heiðvirðum bardaga samkvæmt lögum og reglum. Enda hefur ninjan sjaldan hegðað sér samkvæmt því er rétt þykir á hverjum tíma og fer þá frekar eigin leiðir í trassi við alla íhaldssemi og aðrar ´venjur.´

Á tímum fjölmiðla, kvikmynda og tölvuleikja, er ninjan best þekkt sem illmenni (eða skjaldbaka) sem forðast lögin, stofnar til leiðinda og fremur ógeðfelld illverk í skugga nætur. Ef í harðbakka slær, grípur samviskulaus sveinn satans til óskemmtilegra ef ekki undarlegra tækja og með hoppi og skoppi, brytjar niður andstæðinga sína af hinu versta miskunnarleysi og veldur þar með ugg í áhorfanda. Á hinn bóginn er oft gefin frekar skopleg – og skemmtileg – ímynd af bleikum, grænum og bláum gúmmíköllum sem bjarga heiminum minnst tvisvar í viku, berjast við ógurleg tröll og ófreskjur, eltast við vélmenni etc… Allt í gamni og gott er, en þó er varla hægt að segja að fólki stökkvi ekki bros ef höfundur segir til sín.

Samt sem áður og þrátt fyrir efni og innihald ofanverðrar greinar, er upphafin mikil vakning þar sem bardagalistin sjálf hefur öðlast miklar, vaxandi vinsældir (gott eða slæmt???) og fólk farið að átta sig á því að nokkur alvara á sér stað bakvið grímu gríns og grenju. Foreldrar og félagar (börn og jafnaldrar) virðast ásátt um hversu gott og heilbrigt þetta er; og að þrátt fyrir ofbeldisímynd, fantabrögð og misþyrmingar virðist einungis gott hljóta af. Allt í gamni, mikið hlegið og ýmsar uppgötvanir við sérhvert skref; það er þeman og einstaklingshyggjan í algleymingi sem jákvætt og ríkjandi viðhorf, jafnt í dag sem fyrr á öldum.


NINJA ÞJÁLFUN

Spurning er hvernig farið sé að og hvað skuli gera og hvernig eigi þetta að vera. Samkvæmt aðlögunnarhæfni og einstaklingsbundinni meðferð (i.e. kennslu), er hver og einn látinn þroskast og þróast á sinn hátt, eftir eigin höfði og getu. Náttúruleg hegðun, eðlisfærar hreyfingar og viðbrögð aukin í hvívetna, hver og einn eins fær og hann getur… frá og með fyrsta degi! Engin undarleg regla eða óþarfa agi, skrúðgöngur og/eða hvað annað sem heldur frelsi í skefjum og setur fólk yfir annað. Það eina sem einblínt er á og beðið um er; traust og áhugi (þó eftir hverjum og einum), smá virðing, vilji og rólegheit ásamt þolinmæði og öðrum kostum/göllum. Sem verðandi kennara (shidoshi), finnst mér þá fyrir öllu að ég geti á fagmannlegan og trúverðugan hátt boðið fram allt það sem fellur undir Ninjutsu, ásamt ítarlegri rannsókn á því sem óþekkt er og þess vert að kanna ef áhugi er fyrir hendi…

Þjálfunin sjálf mun – á endanum og sem fyrst – fara fram í mínum eigin sal (Dojo) og mun það líklegast verða titlað Bujinkan Dojo Ísland ásamt góðu nafni á salnum sem ég gef ekki upp að sinni. Hér verða okkar höfuðstöðvar (æfingar minnst 3svar í viku ásamt auka/einkatímum???) og flest allt til staðar eins og mér sýnist best. Hvað annað sem kemur til má láta gerast og ganga útaf fyrir sig, svo lengi sem það stangast ekki á við anda félagsins eða ákvæði Bujinkan samtakanna. Vil ég einnig taka hér fram – enn og aftur – að Ninjutsu er ekki keppnisíþrótt þó að ég telji að keppnismenn (og konur) geti haft margt gott af þessu.

Eins og áður var sagt þá er frelsi og skemmtun fyrir öllu í Bujinkan, enda vil ég ekki aðeins að fólk haldi áhuga og forvitni, heldur einnig að það fari heim fyllt af góðum hugsunum, fróðleik og hugmyndum. En þótt mér þyki gott að láta dæluna ganga, þá er kannski alveg þess virði að minnast á – í grófum dráttum – hvað ég hef í huga svona rétt í fyrstu. Hér að neðanverðu geri ég smá skil á æfingum/tímum og innihaldi þeirra, þó að ég láti – greinilega – ekki allt flakka og vildi ég taka fram að ´náttúruleg breyting´ er grunnurinn og ekkert verður haft of fast í skorðum.

Í upphafi mun hver tími taka ca. eina og hálfa klukkustund af stöðugri kennslu og æfingum sem skipt er í þrjá liði (ca. hálftíma pr. lið)

1.Taihenjutsu og Ukemi Gata ásamt Muto Dori Gata: Ýmsar hreifingar, stöður, stökk, veltur, föll og rúllur, og allt annað þar á milli sem veldur góðum og einkennandi aðferðum hvers og eins. Í Muto Dori Gata er farið í æfingar sem þjálfa viðbrögð og aðferðir óvopnaðs einstaklings gegn vopnuðum andstæðingi (þá yfirleitt með katana þó það sé óskrifuð og breytileg regla).

2.Hér verður farið í vel gildar og hefðbundnar leik-æfingar svo sem Hajutsu Kyu Ho (9 stiga flóttaleiða form???), Shime Waza (kyrkingar og grip!!!) og Nage Wasa (köst og fellur) í byrjun… Fljótlega mun þetta færast yfir í Kihon Happo (8 upphaflegu form) og svo áfram yfir í Ryu (skóla) eins og veður leyfir.

3.Hér mun ég yfirleitt láta eðlið ráða aðeins og hvað mér finnst best að gera að hverju sinni. Yfirleitt verður farið – rólega – út í bardaga (sparring), vopn og annað er kemur til sem gerir hlutina breytilega og yfirleitt óforsjáanlega…

Það er fyrir bestu að allt verði gert rólega og með góðu yfirbragði, farið vel að hverjum og einum eins og best þykir. Stundum verður æft hratt þó yfirleitt hægt, en þar á milli er maður annaðhvort mjúkur eða harður og mun ég reyna að miðla þessu athæfi til allra nemenda. Það er mikið lagt úr sársaukafullum og hættulegum gripum, lásum og árásum þannig að best er að fara varlega ef forðast á slys og leiðindi… Allar móttökur (Ukemi) við höggum og spörkum berast á bert hold og óvarða vanga, þ.e.a.s. engar verjur, hjálmar eða annarskonar útbúnaður mun tíðkast af merkilegum og gildum ástæðum sem útskýrðar verða á æfingu og/eða við gott tækifæri.

Hugleiðslur, Búddismi og hvað annað ´yfirnáttúrulegt´ er nemendur vilja kanna og læra er best gert á eigin spýtur og geta uppblásnir krossfarar fengið allar nauðsynlegar upplýsingar td. úr bíómyndum, teiknimyndasögum og öðru slíku þar sem einnig er hægt er að finna ´yfirnáttúrulegar´ ninjur og ýmisskonar áhugaverð skrímsli sem hægt er að berjast við…

Sem Shidoshi og formaður (ég á nú að vísu eftir að deila um það við konuna) mun ég ábyrgjast að allt það er ég kenni verður gott, gilt og vel til sniðið. Fólk mun geta gengið að þessu á þann máta er því þykir best, hvort sem það sé rólega og við hægan gang, eða af öllum krafti og áhuga. Ég hef tekið þessu sem lífsstíl og umgengst þetta sem list og viðurværi þó að þetta séu alls ekki einhver trúarbrögð sem ekki má óhreinka með heilbrigðri krítík og umtali. Ég mun taka vel á móti öllum þeim sem vilja prófa og/eða æfa með mér og vonast til að geta myndað góð samskipti við öll önnur bardagafélög á höfuðborgarsvæðinu þegar færi gefst. Þannig vona ég bara að félagið fái að vaxa og njóta sín, sem og allir meðlimir… enda get ég lofað því að þetta verður mjög skemmtilegt og jafnframt því fræðandi ævintýri!!!


FRAMTÍÐAR ÁFORM

…En hvað tekur svo við þá er allt er komið af stað og hvernig er hægt að þróa þetta frekar? Og hvað með gráðun, belti, búninga, vopn og annað…?? Hvað með hina og þessa hluti sem falla ekki beint vel til venjulegrar kennslu???

Besta leiðin – að mér sýnist – er hreinlega að byrja og aðlaga sig svo að öllu því sem fyrir ber. Eins og málin standa þá kem ég til Íslands sem fjórða Dan og hef kennslu samstundis. Jafnframt því verð ég í reglulegu sambandi við Japan og kem til með að halda þangað við fyrsta tækifæri. Allar gráður og réttindi koma beint frá Hatsumi Soke, eru undirritaðar af honum og skrásettar innan Bujinkan. Jafnframt því mun ég vera í sambandi við Holland og ákveðna aðila í öðrum Evrópulöndum. Væntanlega verður mikið reynt á það að senda nemendur útum allt og allstaðar svo að þeir fái nú aukna reynslu og gott orð. Vitanlega mun ég einnig bjóða góðu fólki að koma í heimsókn um einhvern tíma, vera með æfingar og aðra stæla svo að allir geti haft gaman af…

Hvað varðar gráðun og belti, þá eru fimm belti notuð innan Bujinkan og engin önnur þó að margir hafi nú reynt að teygja þetta aðeins. Þrátt fyrir freistingar og hin og þessi áform, mun ég af persónulegum ástæðum (ásamt virðingu fyrir Bujinkan) ekki setja upp einhverjar reglugerðir hvað varðar þetta mál. Hinsvegar get ég boðið uppá smá útskýringu hversvegna, ásamt lýsingu á hverju belti fyrir sig:

Hvítt: Byrjendur í öllum aldursflokkum (10da kyu)
Gult: Æfingabelti barna sem hægt er að gefa ca. 9 kyu til 5 eða svo…
Grænt: Æfingabelti karla og telur það 9 kyu niður í 1sta kyu
Rautt: Æfingabelti kvenna sem einnig telur 9 kyu og niður í það fyrsta.
Svart: Fullgildisbelti fullorðinna og má segja að hver sá sem nær svörtu belti sé loks tilbúinn í ekta þjálfun.

Mun ég taka fram til útskýringar að svokölluð Kyu gráða er talin frá tíu og niður í eitt. Þessu fylgir svo svart belti með Dan gráðum (Shodan – Nidan – Shidan – Sandan – Godan etc…). Svo taka við sérstakir titlar, i.e. Shidoshi Ho, Shidoshi, Shihan etc… en ég nenni ekki mikið að lýsa því nánar…

Gráðun er ekki metin á prófum sem hægt er að æfa fyrir sérstaklega eða búa sig undir að einhverju leiti, heldur má segja að hver æfing innihaldi gráðun og mun ég fara að þessu eftir eigin höfði, dómgreind og samvisku (réttlætiskennd???). Þrátt fyrir það – og ef mig lystir – þá mun ég jafnvel setja einstaklinga í próf einhverskonar ef mér finnst það við hæfi og hennta vel. Samkvæmt þessu öllu vil ég ekki einblína á hvert misseri eða árshluta samkvæmt námskeiðahaldi, byrjenda námskeiðum og svo framvegis, heldur halda stöðugum æfingum allan ársins hring (með smá fríum hér og þar eftir dagatali) þó að ég sé mjög viðræðuhæfur hvað varðar allt skipulag og tilitsemi gagnvart nemendum til hópa…

Öll vopn mun ég sjá um og bera fram þó að ég mæli með því að meðlimir eignist sín eigin og hafi endilega allt áhugavert dót með sér á æfingar (alltaf gott að prófa eitthvað nýtt) við hvert tækifæri. Búninga mun ég sjá um í samráði við lærlinga og þó að mér liggi alltaf á að sjá fólk í svörtu Gi, er ég nokkuð þolinmóður og skilningsríkur. Hinsvegar er það köld og hörð staðreynd að ef ég á að taka nemanda alvarlega, þá er ekki verra að hann sé vel klæddur…

Samkvæmt ískyggilegu ímyndunarafli og óeðlilegum hugmyndum, mun ég stefna á að gera sem flest í tímans rás, þó í fullu samráði við alla aðila – ásamt nemendum (vitanlega) – að hverju ævintýri fyrir sig. Margar ráðagerðir og tillögur eru á borði nú þegar, en ég vil ekki valda neinni ógleði með þessu að sinni og bíð frekar míns tíma. En til að ýta aðeins undir áhuga og ímyndun lesanda, þá steðst ég illa freistinguna og leyfi mér að varpa smá ljósgeisla á þetta.

1. Hensojutsu: Leiklist og hæfni ninju til að herma eftir öðrum og setja sig í gerfi.
2. Shinobi Iri + Intonjutsu: Laumuspil og ýmsar aðferðir til að komast um hljóðlaust og óséður. Einnig má æfa það að snúa sig úr böndum og járnum, ásamt listinni að flýja og komast undan…
3. Bajutsu: Hestreiðar og allt það sem hægt er að gera á hestbaki…
4. Tenmon + Chimon: Notkun á himnum (veðri) og jörðu sér til góðs við erfiðar aðstæður…
5. Bushajutsu: Bogfimi…

Að lokum – enda kominn tími til – vildi ég enn og aftur þakka góðar viðtökur, enda bíð ég spenntur að snúa loks heim á leið og deila þessu með þeim sem vilja. Allt er fyrir hendur lagt og veit ég að þetta mun ganga vel þegar tími er til kominn… Enda hef ég það á tilfinningunni að þetta eigi eftir að verða vel þess virði og Ísland í ljóma lagt sem sönn perla innan Bujinkan!


Banpen Fugyo (10.000 changes – No surprise),

Diðrik Jón Kristófersson (a.k.a. Nekron)