Í gegnum tíðina hafa gengið margar sögur um scientific fighting. Á þeim tveimur árum sem ég æfði reglulega heyrði ég líklega aðeins brot af þeim. Margir iða í skinninu að fá að vita nákvæmlega um hvað málið snýst, og ég sjálfur iða í skinninu að segja frá Scientific Fighting frá sjónarhóli nemanda. Ég vil endurtaka, þessi grein er mín persónulega upplifun af æfingum í Scientific Fighting og hvað mér fannst ég vera að gera á þeim tíma sem ég var að æfa. Því miður hef ég ekki getað stundað SciFi í talsvert langan tíma.

Til að byrja á byrjuninni þá verðum við að gera greinarmun á tvennum hugtökum sem hafa skapað mikinn rugling. Í þessari grein mun ég tala um bardagalist sem æfingar eða aðferðir sem ætlaðar eru til að “minnka líkurnar á meiðslum ef kemur til raunverulegra slagsmála” (Ég segi minnka líkur því þó maður hafi fulla stjórna á sjálfum sér hefur maður aldrei fulla stjórn á aðstæðunum). Bardagaíþrótt nota ég hinsvegar þegar um er að ræða æfingar eða aðferðir til keppni – þar sem aðstæðurnar eru reglubundnar (allar keppnisíþróttir setja reglur og/eða form sem ekki má brjóta), á ensku yrði því best lýst sem “controlled environment”.

Þegar ég byrjaði að æfa bardagalistina Scientific Fighting (SciFi) hafði ég aldrei æft neitt af þeim toga og vissi því lítið um það sem ég var að taka mér fyrir hendur. Aðeins að þessi tiltekni hópur snerist um bardalist en ekki íþrótt – Egill, þjálfari SciFi benti mér strax á það og mældi með æfingum annarsstaðar ef ég vildi keppa formlega, fá belti, o.s.frv. Ég var ekkert frekar að sækjast eftir því, svo ég fór að æfa hjá Agli.

Á forsíðu SciFi er lýsing á því um hvað það snýst, en þrátt fyrir það er e.t.v. erfitt að átta sig á því. SciFi hefur verið kallað Jeet Kune Do, Mixed Martial Art, Brazilian Jiu Jitsu með heimalöguðum leyniuppskriftum – og margt fleira. En SciFi er þess eðlis að það er varla hægt að kalla það neitt annað en “einfaldasta leiðin að sigri”. Í einhverjum af fyrstu tímunum mínum í SciFi sagði þjálfarinn mér setningu sem lýstu þessu mjög vel: “Einfaldasta leiðin til að vinna er að skjóta gæjann – við göngum samt útfrá því að við höfum enga byssu og notum þessvegna líkamann eða barefli í staðinn”.

HEIMSPEKIN

Til að útskýra á sem skýrastan hátt hvað Scientific Fighting er og hvernig það virkar, þá er best að byrja á að lýsa eðli samfélagsins. Mannfólk á það til að flokka of mikið og of nákvæmlega. Þetta er m.a. vegna þess að heimurinn er svo flókinn að við verðum að einfalda hann til að skilja hann. Í stað þess að segja: “Þarna er spírallaga form úr harðgerðu efni sem geymir líffræðilegt fyrirbrigði sem lifir á laufblöðum” þá segjum við einfaldlega: “Þarna er snigill”.
Þetta virkar mjög vel og er nauðsynlegur þáttur í því að mannkynið lifi af – en það er ekki þar með sagt að þetta sé fullkomin aðferð. Það sem á það til að gerast er ofureinföldun – þegar við förum að ganga út frá því að þegar eitthvað heiti snigill hafi það alltaf sömu eiginleika og hegði sér eins. Þannig virkar mannsheilinn og það er ekkert til að skammast sín fyrir. Rannsóknir hafa verið gerðar á notkun hamra til að leysa ýmis verkefni þar sem fram kom að reyndir smiðir voru lélegri í að nota hamarinn til annars en að lemja með – einfaldlega vegna þess að það var þeirra innstimplaða ímynd af hamri. Þeir litu á hann sem “naglafesti”, en ekki t.d. sem járnáhald í laginu eins og ‘T’.

EÐLI ÆFINGANNA

Þetta leiðir okkur að SciFi aftur. SciFi snýst um að losa sig við allar fyrirframákveðnar hugmyndir um hvað gæti gerst og hvað þú ætlar að gera. Það snýst um að þjálfa í sér þann hæfileika að aðlagast aðstæðunum og bregðast við á hvern þann hátt sem hentar að hverju sinni. Þó maður hafi æft sig að negla nagla með hamri þá er ekkert sem bannar þér að nota klauf hamarsins til að klóra þér í hausnum… Á þennan hátt er Scientific Fighting eins og JKD – stíll án stíls. MMA byrjaði svona, en því miður verður það sífellt kassalagaðra: Þetta trikk er í MMA en ekki þetta!

Þegar allt yfirlæti, leikaraskapur, belti, búningar og föt hafa verið tekin burt þá erum við ekkert annað en naktir apar. Þessir nöktu apar hafa þá líkamlegu eiginleika að hafa tvær hendur og tvo fætur. Þegar þú stillir tveimur af þessum öpum upp á móti hvorum öðrum og segir þeim að slást þá eru engar lygar, leikaraskapur eða reglur. Þeir nota það sem þeir hafa á þann hátt sem þeir geta. Þetta er eins af undirstöðum Scientific Fighting. Þú notar það sem þú hefur, á þann hátt sem þú getur – algjörlega óháð því hvort það sé þannig sem “á að gera það” eða að “það sé partur af stílnum”.

Gengið er út frá grunnæfingum sem svo er hægt að blanda saman og aðlaga á hvern þann hátt sem þarf að hverju sinni. Þetta er andstæða þess sem hinar klassísku bardagalistir gera, þar sem viðbrögð við fyrirframákveðnum aðstæðum eru æfðar. Dæmi til skýringar: “Ef einhver kýlir þig svona, þá gerir þú svona!”. Allir ættu að vera sammála því að þessi ‘einhver’ er vís til alls, og það er afleitur (ekki ómögulegur samt) möguleika að æfa viðbrögð við öllum hugsanlegum aðstæðum sem upp geta komið. Þessvegna finnst mér rökréttast að æfa viðbrögð, grunnhreyfingar - og svo þann hæfileika að geta aðlagað sig aðstæðunum og notað kunnáttu sína á skapandi, sjálfkrafa hátt að hverju sinni. Líkt og þegar þú leggur hendina á brennandi hellu. Þeir sem hafa sparrað vita að um leið og þú ferð að “hugsa” um hvað þú ætlar að gera þá ertu ekki lengur að einbeita þér að aðstæðunum, því eru hugsunarlaus viðbrögð oft mun árángursríkari þegar lífið liggur við.

Rökrétt hegðun er megin undirstaða Scientific Fighting (ergo the name). Við æfingar er bókstaflega notuð vísindalega aðferðin:
- Söfnum upplýsingum (metum okkar eigin líkamlegu eiginleika)
- Leggjum fram tilgátu (æfum viss grunn-viðbrögð)
- Gerum tilraun (spörrum/sláumst (e. Spar) og prófum hvort æfingarnar bera árángur).
- Meta niðurstöðu og endurtaka ferlið
Þetta er eina leiðin til að vera viss um að maður hafi ekki ranghugmyndir um heiminn. “Virkar þetta fangbragð við erfiðar aðstæður? Prófum það bara.”

Tilfinningin sem fylgir því að vita sín takmörk á svo frumstæðu stigi eins og því líkamlega … er vægast sagt dásamleg. Það má bæta því við hér að æfingarnar hjá SciFi eru sniðnar eftir einstaklingum. Þ.e.a.s., ef þú ert mjór og snöggur þá er lögð áheyrsla á að nýta þá eiginleika þér til góðs (þó er auðvitað reynt að bæta ókostina). Aðferðir byggja á því hvers þú ert megnugur og því eru aðferðir valdar sem henta hverjum og einum.

SPARRING

Hér er rétt að minnast aðeins á Sparring tíma SciFi. Margir vissu fyrir þessa grein að gengið er útfrá sem raunverulegustu aðstæðum sem hægt er við æfingar. Þ.e.a.s. að reynt sé að líkja eftir raunverulegum slagsmálum. Náttúrulega hafa þessvegna margir bent á það að hlífarnar (taekwondo-brynja, sköflungs-hlífar og hjálmur) hefti mann og séu alls ekki eins og það mundi vera í raunveruleikanum. Augljóslega er þetta rétt, en þeir sem það segja eru að gleyma að hugsa rökrétt – ef sparrað væri án þessara hlífa (sem þýðir að það yrðu slagsmál) þá er mjög líklegt að það yrðu nú fáar æfingar á mánuði….eða ári. Það er ekki mjög rökrétt, er það? Er hægt að verja sig jafn vel í götuslagsmálum ef maður er putta-, rifbeins og nefbrotinn eftir æfingar?


Í lokin vil ég aðeins segja að við búum á litlu landi, greyið smáborgararnir við, reynum að læra af hvor öðrum í stað þess að rífast. Enginn er fullkominn.

Ég vona að þessi reynslusaga hafi kastað einhverju ljósi á æfingarnar, svo vil ég benda á spjallborð Scientific Fighting sem finna má á heimasíðunni þeirra.

Kv.
-Hrafn