Grein frá www.taekwondo.is
_______________________________________

3 gull, 2 silfur og 4 brons á Norðurlandamótinu í taekwondo

Íslendingar eignuðust 3 nýja Norðurlandameistara í taekwondo nú um helgina. Björn Þorleifsson vann með yfirburðum sinn flokk, -78 kg fullorðinna. Tinna M. Óskarsdóttir vann sinn flokk, -63 kg unglingar og Sigríður Lilja Skúladóttir sinn, +68 kg unglingar.

Sara Magnúsdóttir og Sólrún Svava Skúladóttir unnu til silfurverðlauna í unglingaflokki -68 kg og +68 kg.

Auður Anna Jónsdóttir og Rut Sigurðardóttir unnu til bronsverðlna í -67 kg fullorðinna og +72 kg fullorðinna. Einnig vann Ragna Kristjánsdóttir til bronsverðlauna í -59 kg unglinga.

Írunn Ketilsdóttir hlaut bronsverðlaun í poomse (formi).

Björn Þorleifsson lagði þrjá andstæðinga sína öruggt. Fyrst mætti Björn Javid Ayob frá Noregi, sem átti aldrei nokkurn möguleika. Björn sigraði mjög öruggt með 18 stigum á móti 5 stigum Norðmannsins. Í bardaga númer tvö lenti Björn á móti Finnanum Mikko Korhonen og náði Finninn aldrei neinu stigi á Birni. Sá bardagi fór 10-0 fyrir Birni. Í úrslitabardaganum mætti Björn, Svíanum Tobias Wilhelm. Tobias átti aldrei neinn möguleika og fór úrslitabardaginn 15-9. Björn var með yfirburði frá fyrstu mínútu, eins og reyndar í öllum sínum bardögum.

Tinna keppti tvo bardaga, þann fyrri vann hún mjög öruggt, 20-5, og þann síðari 14-12. Úrslitabardaginn var mjög spennandi og Tinna vann hann mjög sanngjarnt. Sigríður keppti til úrslita við systur sína, Sólrúnu. Bardaginn var mjög skemmtilegur og fór 17-14.

Sara H. Magnúsdóttir stóð sig einnig gríðalega vel í úrslitabardaganum. Hún fékk Lisa Huang sem mótherja og tapaði Sara naumlega með 18-20.

Rut Sigurðardóttir náði ekki að vinna undanúrslitabardagann sinn á móti Jasmina Kurdija frá Svíþjóð og fékk þar af leiðandi brons.

Auður Anna Jónsdóttir, sem vann sinn fyrsta bardaga 11-6 á móti Omina Abacioglou frá Svíþjóð, tapaði svo í undanúrslitum á móti Christina Rasmussen frá Danmörk sem kom óþreytt inn á þar sem hún sat hjá í fyrstu hrinu. Auður Anna fékk því bronsið.

Ragna Kristjánsdóttir stóð sig eins og berserkur og fékk mjög sterkan mótherja, en hún lenti móti hinni efnilegu Thale Løvaas. Ragna skoraði 17 stig sem var mjög gott, en nægði henni ekki til sigurs. Thale hefur aldrei fengið á sig eins mörg stig í bardaga.

Þorri Birgir Þorsteinsson stóð sig mjög vel en hann lenti á móti Jaakko Pitkanen frá Finnlandi. Þorri var yfir fyrstu lotu en þá náði Jaakko sér á strik og vann allar lotur eftir það og sigraði svo mótið í sínum flokki.

Arnar Snær Valmundason, Arnar Bragason og Helgi R. Guðmundsson náðu ekki að vinna sína bardaga og komust því ekki áfram. Helgi var nú svo óheppinn að lenda á móti Jesper Roesen frá Danmörk, en fyrir þá sem ekki þekkja til Jesper þá hefur hann verið einn sá sterkasti taekwondomaður í heiminum síðustu 5 árin.

Valdimar Kristján Pardo skoraði mörg góð stig, en það dugaði honum ekki til að komast áfram.

Erlingur Jónsson
Upplýsingafulltrúi TKÍ
Taekwondo.is
_____________
Nánari upplýsingar er að finna á www.taekwondo.is