Frétt fengin af Taekwondo Ísland www.taekwondo.is heimasíðunni
_________________________________________ __

Tveir Íslendingar Norðurlandameistarar 2004

Þau Björn Þorleifur Þorleifsson og Rut Sigurðardóttir urðu Norðurlandameistarar 2004 laugardaginn 24. janúar í Vierumaki í Finnlandi. Björn og Rut unnu alla sína bardaga öruggt. Þrátt fyrir að Björn Þorleifsson væri með flensu og hálf slappur kom það ekki í veg fyrir að hann nældi sér í gullið. Í viðtali við Taekwondo.is sagði Björn að í fyrstu tveimur lotunum hafi hann verið ótrúlega slappur og í raun hálf dofinn. Hann sagðist hafa verið ótrúlega lengi í gang vegna hitans, sem hann var með, en tókst þó að keyra örugga tækni út bardagana. Björn tók fyrst á móti Dananum Tarik Abu Setta og vann hann öruggt 9-4. Björn þekkir vel til tækni Tariks og gat nýtt sér það í bardaganum. Bardagi númer tvö var svo á móti Riku Alahäme frá Finnlandi, og vann hann þann bardaga 9-6. Í úrslitabardaganum mætti Björn Jani Hirvonen frá Finnlandi sem hann hefur mætt 3svar áður og unnið í tveimur af þeim. Jani er gríðalega sterkur keppnismaður og án efa einn af bestu taekwondomönnum Finnlands. Að sögn Björns var hann á þeim tímapunkti kominn í góðan gír þrátt fyrir slappleika og sigraði Finnann sterka 8-5 eftir mjög skemmtilegan bardaga. Að lokum sagðist Björn vera mjög ánægður með árangurinn enda með gullið í hendinni.

Björn hefur dvalið í búðum danska landsliðsins síðustu vikur undir handleiðslu Master Bjarne Johansen og mun halda áfram að æfa með þeim næstu vikur. Hann er þeim mjög þakklátur fyrir þá gestrisni sem þeir og norska landsliðið hafa veitt honum undanfarin misseri.

Rut Sigurðardóttir mætti Essi Aronen frá Finnlandi í sínum fyrsta bardaga, og fór sá bardagi 14-1, sem er mjög öruggur sigur. Í úrslitabardaganum mætti Rut, Raina Leedberg einnig frá Finnlandi, og fór sá bardagi 12-9. Í viðtali við Taekwondo.is sagði Rut að hún hefði stjórnað báðum bardögunum, þó aðallega bardaganum við Essi sem átti aldrei neinn möguleika frá upphafi. Í úrslitabardaganum fór einnig allt eftir Rutar höfði, og stjórnaði hún einnig þeim bardaga frá upphafi. Þó sagði Rut að hún hefði aðeins slakað á í síðustu lotu, og fengið á sig ódýr stig. Hún er mjög ánægð með árangurinn og sagði að miklar æfingar undafarnar vikur hefðu greinilega skilað árangri þarna enda væri hún í mjög góðu formi þessa dagana. Henni fannst þó verst að það væru ekki fleiri bardagar þar sem hún var fyrst almennilega að komast í stuð þegar úrslitabardaganum lauk.

Það voru þó ekki aðeins Björn og Rut sem fóru heim með verðlaunapening, Helgi Rafn Guðmundsson fékk silfur og þau Tinna María Óskarsdóttir, Helgi Sigurðarson og Pétur Gunnar Guðmundsson nældu sér öll í bronsverðlaun.

Að sögn Sigursteins Snorrasonar þjálfara og fararstjóra fór mótið mjög vel fram og var vel skipulagt. Hann var mjög ánægður með íslenska hópinn og sagði að þau hafi staðið sig mjög vel og öll gert sitt besta. Hann var að sjálfsögðu mjög ánægður með verðlaunahafana og hina tvo nýju Norðurlandameistara.

Texti: Erlingur Jónsson
_____________________________________________

Frét t fengin af Taekwondo Ísland www.taekwondo.is heimasíðunni