Íslensku júdómennirnir keppa á Smáþjóðaleikunum á Möltu á morgun þriðjudag. Karlmennirnir hafa ætíð sópað að sér verðlaunum á leikunum og síðast fengu þeir 3 gull, 2 silfur og 2 brons í flokkunum 7. Konunum hefur yfirleitt gengið verr, fengið eitt og eitt brons, en nú þykir mér þær líklegri til afreka.

Karlaliðið er þannig skipað:
-60: Höskuldur Einarsson er 3. dan og hefur keppt á fjölmörgum Smáþjóðaleikum og þar á meðal fengið gull í Liechtenstein 1999 og Luxemburg 1995.
-66: Heimir Kjartansson hefur ekki áður keppt á Smáþjóðaleikum. Ég man aldrei eftir að Íslendingur hafi unnið þennan flokk.
-73: Snævar Jónsson er skærasta stjarna Júdófélags Reykjavíkur. Hann fékk silfur á síðustu leikum. Helsta afrek Snævars er að verða Norðurlandameistari 2001.
-81: Vignir Stefánsson hefur tvisvar keppt á Smáþjóðaleikum. Hann fékk silfur í Luxemburg 1995 og San Marino 2001. Vignir keppir aðallega í Bandaríkjunum þar sem hann er í námi og hefur unnið fjölmörg mót þar. Hann hefur, að mig minnir, þrisvar sinnum komist í fjórðungsúrslit á EJU A-móti.
-90: Máni Andersen er nýliðinn í hópnum.
-100: Bjarni Skúlason er skærasta stjarna Ármanns. Hann er margfaldur Norðurlanda- og Smáþjóðameistari og hefur hlotið fjölda verðlauna á opnum alþjóðlegum mótum.
+100: Heimir Haraldsson er reyndur þungavigtarmaður sem hefur ekki keppt á Smáþjóðaleikum áður. En hann hefur á ferlinum m.a. hampað Norðurlandameistaratitli.

Ég er ekki eins fróður um kvennaliðið:
-57: Hjördís Ólafsdóttir.
-63: Margrét Bjarnadóttir.
-70: Gígja Guðbrandsdóttir.
-78: Soffía Víkingsdóttir er alveg örugglega Norðurlandameistari í flokknum. Hún hefur einnig orðið Norðurlandameistari í opnum flokki.

Athygli vekur að heima situr Vernharð Þorleifsson sem hefur átt við meiðsli að stríða, en ég hélt að hann ætti að vera búinn að ná sér. Þess vegna er Bjarni Skúlason settur í -100 og Máni Andersen kemur inn í -90.

Einnig sitja eftir með sárt ennið:
Darri Kristmundsson (-60) sem vann Höskuld í síðustu glímu þeirra en Höskuldur er 150% eldri og reyndari.
Ólafur Baldursson (-66) sem vann Heimi Kjartansson í síðustu glímu þeirra en náði almennt ekki að sýna sitt rétta andlit í vetur.
Hilmar Trausti Haraldsson, Íslandsmeistarinn í -66.
Axel Jónsson var landsliðsmaður í -81 en er meiddur.
Ingibjörg Guðmundsdóttir (-52) æfir í Japan, sem er of langt í burtu.

Akureyringar hafa að þessu sinni engan fulltrúa í júdólandsliðinu. Samt eru örfá ár síðan þeir voru sterkasti klúbburinn. 1997 unnu þeir t.d. sveitakeppnina og B-sveit þeirra varð í öðru sæti en Reykvíkingar fengu brons. Það þarf einhver að taka sig til og endurreisa KA-veldið.

Hægt er að fylgjast með leikunum hérna:
http://www.nocmalta.org/gsse.htm