Björn sigrar á Scandinavian Open Grein fengin frá Taekwondo Ísland www.taekwondo.is:

——-
Björn sigrar á Scandinavian Open

Björn Þorleifsson vann til gullverðlauna á Scandinavian Open, sem fram fór núna um helgina í Árósum í Danmörku.
Björn, sem er í toppformi þessa daga, fór með sigur af hólmi í báðum sínum bardögum. Björn mætti fyrst Allan Pedersen, risanum frá Ballerup, og sigraði hann örugglega með 14 stigum á móti 4. Að sögn Björns þá tók það hann um eina mínútu að komast í gang, því hann var svolítið kaldur, en eftir það var eftirleikurinn léttur. Björn stjórnaði bardaganum allan tímann og sagði hann hafa verið frekar léttan.
Í úrslitabardaganum, mætti Björn, Jani Hirvonen frá Finnlandi. Jani er mjög sterkur andstæðingur, enda sagðist Björn hafa farið varlega í hann og ekki viljað taka neinar óþarfa áhættur. Jani hefur góða bardagatækni, er með tímasetninguna í lagi og er fljótur að refsa andstæðingnum fyrir mistök þeirra. Björn skoraði þó fleiri stig en Jani, og fór með sigur af hólmi eftir spennandi og skemmtilegan bardaga.

Björn Þorleifsson var eini íslenski keppandinn á mótinu og keppti í 72-78kg flokki. Í sama flokki, fyrir utan Jani og Allan, þá voru þeir Andreas Lefort frá Danmörk, Roi Nolsøe frá Noregi, Ivar Olsen frá Noregi og Miguel Lehman frá Noregi.

Björn Þorleifsson hefur æft með norska landsliðinu í boði Master Michael Jørgensen landsliðsþjálfara Noregs. Master Michael er vel þekktur hér á Íslandi, enda hefur hann kennt og verið stofnandi nokkurra Taekwondo félaga á landinu.

Scandinavian Open var vel skipulagt og mjög stórt mót. Vel yfir 200 manns tóku þátt í mótinu sem fór vel fram og stóð frá klukkan 8 um morgunin og lauk klukkan 18. Keppt var bæði í Sparring (bardaga) og Poomse (tækni-formi). Mótið var haldið í tveimur samhliða íþróttasölum. Grandmaster Kyoung-An Choi 9.dan og Grandmaster Cho Woon Sup 8.dan voru báðir viðstaddir.

Þátttakakendur á mótinu voru úr félagsliðum frá Danmörku, Noregi, Svíþjóð, Finnlandi, Þýskalandi, Belgíu, Hollandi og Íslandi.

Lokastig keppninar voru eftirfarandi:
Sæti / félag / (stig)

1. Vilby Olympic (56)
2. Team Norway (55)
3. Brande (41)
4. Malmø S (32)
5. Rødovre (32)
6. Esbjerg City (22)
7. Esbjerg (18)
8. Gladsaxe (17)
9. Nordborg (16)
10. Holbæk (13)
11. Silkeborg (10)
12. Aalborg (10)
13. Slolrød (10)
14. Nørrebro (8)
15. Iceland (7)
16. Team Finnland (7)
17. Non-Jang B (6)
18. Roskilde (6)
19. Bellinge (4)
20. Ballerup (2)
21. Husum D (2)
22. København (1)
23. Viby (1)

Nánari upplýsingar um mótið er að finna á umræðusíðu TKÍ.
http://www.taekwondo.is/default.asp?Doc=250&ID=1018&H ead=259

Og eldri fréttir:
Björn Þorleifsson á Scandinavian Open
Björn Þorleifsson æfir með norska landsliðinu

Myndir frá mótinu koma síðar.

Texti: Erlingur Jónsson