Varðandi Liðamót Fjölnis 30. nóv.

Í hverju liði eru fjórir einstaklingar sem samtals eru ekki þyngri en 300 kg. Ef liðið er t.d. 305 kg samtals við vigtun verða allir að reyna að létta sig þar til liðið fer undir 300 kg í seinni tilraun klukkutíma seinna. Ef liðið er enn 300+ kg dettur einn keppandi úr leik í öllum sínum bardögum, liðið velur hann sjálft. Þannig tapar liðið sjálfkrafa alltaf einum bardaga af fjórum. Léttasti keppandi hvers lið heitir keppandi eitt og keppir hann við keppanda eitt í öðrum liðum og svo koll af kolli. Það lið sem vinnur þrjá eða fjóra bardaga vinnur leikinn og fær þrjú stig fyrir sigur, hitt liðið fær eðlilega engin stig. Ef bæði lið vinna tvo bardaga er jafntefli, bæði lið fá eitt stig. Ef tvö eða fleiri lið eru jafnhá að stigum eftir mótið gildir reglan unnir bardagar eða bara markatalan ef við tökum boltagreinar sem samanburð. Ef enn er jafnt er farið eftir skoruðum stigum á bardaga.

Hvert lið skal vera skipað fjórum löglegum iðkendum hvers félags, 15 ára og eldri. Skipt verður í tvo beltaflokka, 10. - 5. geup og 4. geup og yfir. Athugið að keppendur mega keppa upp fyrir sig en alls ekki niður. S.s. gulbeltingur má keppa í hærri flokknum þó það sé ekkert sérstaklega ráðlegt að gera það. Rauðbeltingur má ekki ekki keppa í lægri flokk undir neinum kringumstæðum.
Í kvennaflokk gilda þær reglur að hvert félag sendir fjóra keppendur óháð aldri, þyngd og belti. S.s ef lið hefur yfir að ráða fjórum 80 kg stelpum með svart belti má tefla þeim fram sem liði. Eins má félag senda fjórar 50 kg stelpur með gult belti. Að öðru leyti gilda sömu reglur og í karlaflokk.
Hvert lið skal hafa nafn og fyrirliða, t.d. Ármann 1, Fyrirliði Jón Jónsson. ÍR B, Fyrirliði Jóna Jónsdóttir. Verð fyrir lið er 10.000 kr.
Ef þrjú lið skrá sig í flokk keppir hver keppandi tvo bardaga. Ef liðin verða fimm keppir hver fjóra bardaga. Hver bardagi er 2X2 mín. en breytist í 1X2 mín. ef þátttaka fer yfir ákveðin fjölda, s.s. ein lota pr. bardaga.

Einnig minni ég á Púmse og Kjokpa-mótin sem fara fram fyrir hádegi. Verð í Púmse er 1.500 kr og 500 kr í kjokpa. Þeir sem eru skráðir í liðamótið í Kjorúgí borga eitt verð, 10.000 kr fyrir allt mótið(4 X 2.500 kr á mann). Þeir mega því keppa í bæði Púmse og Kjokpa og er það innifalið í verðinu. Keppendur brjóta sitt eigið efni sem þeir koma með sjálfir. Keppandi mótsins verður valinn eftir stigafjölda sem reiknast þannig: gull 5 stig, silfur 3 stig og brons 1 stig. Ef lið keppanda sigrar í liðakeppni fá allir keppendur liðsins fimm stig. Sérstök verðlaun verða veitt þeim keppanda sem sigrar í öllum greinum þ.e. Púmse, Kjokpa og Kjorúgí (15.000 kr).

Sigursteinn