Nám í Margmiðlunarhönun á háskólastigi – Framhald. Sælir kæru hugarar.

Ég er reyndar búinn að ætla mér að skrifa þennan pistil fyrir all nokkru síðan en vinna og skóli hefur tekið frá mér allann minn tíma upp á síðkastið. En það er alltaf betra að hafa of mikið að gera en ekkert. Right ?!?

En þá að sjálfu efninu. Fyrir nokkru póstaði ég grein hérna um kynningu sem að ég hélt á Íslandi vikuna 15. – 22. febrúar sl. þar sem að ég var að kynna nám í margmiðlunarhönnun á háskólastigi við Københavns Tekniske Skole í Kaupmannahöfn. (Greinina má sjá hérna).

Kynningin á náminu og þeir fundir sem að við áttum með hinum ýmsu aðilum og stofnunum í kjölfarið fóru langt fram úr okkar björtustu vonum. Við áttum fundi með L.Í.N., Iðnskólanum í Reykjavík, Flensborg, Alþjóðaskrifstofu Háskólastigsins og Menntamálaráðuneytinu svo einhverjir séu nefndir.

Því miður fengust þau svör frá menntamálaráðuneytinu að þar á bæ eru ekki uppi nein áform um eflingu náms á þessu sviði á háskólastigi, ef frá er talið að þar eru menn opnir fyrir þeim möguleika að Iðnskólanum í Reykjavík verði gefin heimild til þess að útskrifa nemendur með diploma gráðu í margmiðlunarhönnun að minnsta kosti. Þ.e. ef að viðræður um stækkun og sameingu Iðnskólans fari á þann veg sem að vonir standa til. Þetta er þó ekki komið lengra á veg en svo að engar tímasetningar hafa verið gefnar upp að svo stöddu.

Listaháskólinn er enn sem komið er eina stofnunin á Íslandi sem að sinnir þessum sviði atvinnulífsins á einhvern hátt en því miður er enginn áhersla á margmiðlun þar.

Til þess að koma til móts við nemendur í margmiðlunarhönnun heima á Íslandi, sem hafa áhuga á að verða sér út um frekari menntun á þessu sviði, hefur margmiðlunardeild Københavns Tekniske Skole sett í gang vinnuferli sem að miðar að því að nemendur með stúdentspróf af list- og margmiðlunarbrautum úr íslenskum framhaldsskólum fái stúdentsprófið metið sem eitt ár upp í diplomagráðu í margmiðlunarhönnun við K.T.S. Þetta þýðir að í stað þess að þurfa að taka tvö ár til þess að útskrifast með diploma gráðu frá K.T.S., þurfa nemendur með stúdentspróf að list- og margmiðlunarbrautum frá Íslandi einungis að taka eitt ár.

K.T.S. hefur sótt um til danska menntamálaráðuneytisins að fá að útskrifa nemendur með B.A. gráðu í margmiðlunarhönnun og er þessi umsókn núna til umfjöllunar hjá yfirvöldum. Gangi þetta eftir getur farið svo að B.A. nám í margmiðlunarhönnun hefjist hérna við K.T.S. næsta haust ef áætlanir ganga eftir.

Eftir diploma gráðuna í margmiðlunarhönnun eru óteljandi möguleikar í stöðunni. Hægt er að fara í áframhaldandi nám í skydum greinum eins og grafískri hönnun, kvikmyndagerð, arkitektúr eða medialogy. Eða þá að reyna fyrir sér á atvinnumarkaðinum. Sjálfur er ég að vinna sem grafískur hönnuður fyrir alþjóðlegan fjárfestingarbanka hérna í Kaupmannahöfn og er þess utan með lítið hönnunarfyrirtæki sem að ég á og rek ásamt nokkrum vinum mínum úr skólanum hérna – og miðað við verkefnastöðuna eins og að hún er hjá okkur núna þá erum við að fara að ráða meira fólk til okkar á næsta ári.

Við frá K.T.S. urðum þess einning áskynja að það er mikill og vaxandi áhugi á tæknimenntun á háskólastigi sem af einhverjum ástæðum virðist því miður ekki vera sinnt nógu vel af yfirvöldum á Íslandi.
Af þessum sökum var ákveðið að kanna kosti þess að ég taki að mér það verkefni að búa til íslenska síðu fyrir K.T.S. þar sem að allt þeirra nám yrði útlistað ásamt leiðbeiningum um hvernig best sé að bera sig varðandi húsnæðisleit, námslán, flutning til Danmerkur, tungumálanámskeið o.s.fr.
Flest allar deildir sem að heyra undir K.T.S. (og þar með talið margmiðlunarhönnunin) bjóða upp á allt sitt nám á bæði ensku og dönsku. Svo er það að sjálfsögðu einstaklingsbundið hvorn kostinn menn vilja frekar.

Ég setti kyninnguna sem að ég hélt á netið fyrir þá sem að áhuga hafa. Slóðin er: www.hnefill.com/kts/kynning.htm

Einnig er fólki að velkomið að hafa samband við mig á tölvupósti á netfangið: jon.jakobsson@gmail.com ef þið viljið fá að vita meira og ég mun reyna að svara öllum þeim spurningum sem að þið kunnið að hafa.

Kveðja,

NightCrow