Sælir!

Ég hef verið að prófa mig áfram með lið úr 1. og 2. deildum á Englandi. Sem stendur er ég að spila Cardiff með rífandi gengi - kem sennilega til með að skrifa grein um árangurinn á fyrsta tímabili.

En þegar ég hef verið að byrja með liðin þarf vitaskuld yfirleitt að byrja á því að styrkja þau. Á þessari síðu hefur verið bent á urmul af leikmönnum, misjafnlega ungum, góðum og ódýrum. Það hefur samt einhvern veginn verið þannig, að mér hefur gengið mun betur að manna vinstri vænginn (Daniel Braathen og Lionel Morgan oftast nær) en það hefur verið erfiðara að finna ódýra en fantagóða leikmenn sem vilja koma til liða utan úrvalsdeildar. Ég hef þó fundið nokkra, en þar af er einn sem ber algerlega af. Ég ákvað að benda á hann hér, þar sem ég man ekki eftir að hafa séð hann nefndan.

Maðurinn heitir Toledo og er 17 ára Brassi. Hann spilar með einhverju krummaskuðsliði í Brasilíu og vill ólmur komast þaðan. Liðið hans er yfirleitt tilbúið til að selja hann á 60-350.000 pund (svolítið misjafnt). Hann hefur fengið atvinnuleyfi á Englandi í 5 af 8 tilraunum, svo það eru ágætar líkur.

Drengurinn er algert undrabarn, sólar nánast hvern sem er, er öllum mönnum fljótari og á úrvalsfyrirgjafir. Hann er teknískur, hefur gott auga og klárar sín færi afbragðsvel, og það sem er meira um vert, skilar sínu í hverjum leik. Ég hef ekki lent í því að missa hann í meiðsli meira en örfáa daga í senn, svo hann virðist ekkert sérstaklega brothættur.

Hann ku geta spilað bæði miðju og sókn, hvort sem er hægra megin eða á miðju vallar, en hjá mér hefur hann komið langbest út sem sóknarsinnaður hægri kantmaður - sennilega vegna þess hve vel eiginleikar hans nýtast í þeirri stöðu, þótt hann geti spilað hinar líka.

Ég mæli með því að þið kíkið á hann.

Í þau skipti sem ég hef ekki fengið atvinnuleyfi fyrir hann, hef ég alltaf getað fengið leyfi fyrir Freddy Guarín, sem er annar efnilegur ungur maður, sem er vel hægt að nota hægra megin líka.