Tár, bros og tuðruspark (2) Ég lagði notaðan pennan á borðið og starði í nokkrar sekúndur á nýundirskrifaðan samninginn, efst á blaðinu blasti við mér merki liðsins Mallorca og þar fyrir neðan stóð Quinton Fortune. Já, fyrsta sala mín sem framkvæmdarstjóri Manchester United var að ganga í gegn. Ég leit upp og horfði í augun á Fortune, ég tók eftir smá eftirsjá í augum hans en ég við vissum báðir að þetta var til hins góða. Hann hafði ekki verið að fá mikið af tækifærum hjá mér og sá ég ekki fram á mikla breytingu hvað það varðaði vegna þess hversu góða vinstri kantmenn í hafði í röðum mínum. Með þessu móti fengi hann væntanlega að njóta sín betur og myndi fá stærri skammt af sviðsljósi sem fastamaður í byrjunarliði Mallorca.
Áætlað kaupverð var 2.7m og voru bæði lið sátt við það þar sem Fortune var metinn á 2.5m þegar þetta átti sér stað, Robinho hafði stuttu áður fengið atvinnuleyfi og veitti mér þá ekki af peningnum til að borga fyrir hann þegar leiktíðin yrði á enda.

Mánuðir voru liðnir síðan Arsenal hrifsaði til sín góðgerðaskildinum og hafði margt gengið á síðan þá. Mér hafði gengið nokkuð vel í deildinni og sat í 2. sæti þennan daginn, 5 stigum á eftir erkifjendunum í Arsenal. En ég lét það ekkert á mig fá og var staðráðinn í að staðan myndi breytast okkur í hag innan skamms. Ég hafði líka verið duglegur að opna budduna þessa mánuði sem liðið höfðu síðan síðast. Desember var nokkrum dögum frá því að verða að veruleika og hafði ég fengið til liðs við mig 7 leikmenn síðan í ágúst, má þar helst nefna Vegard Nortveit, Anthony Varden Borre og Petter Vaagan Moen en voru þetta allt ungir leikmenn sem ég hafði góð framtíðarplön fyrir…

Meistaradeildin var komin vel á leið og höfðum við lent í riðli með Ajax, Lyon og CSKA Moscow. Ég gat ekki verið annað en ánægður með mína menn í þeirri keppni því við sátum á toppnum með Moscow 2 stigum á eftir okkur og þar sem aðeins ein viðureign var eftir þá vorum við öruggir áfram. Vorum við allir sammála því að þar væri vissri byrði af okkur létt og næsti leikur væri líka kjörið tækifæri fyrir unglingana mína til þess að sýna hvað í sér byggi, þar sem úrslitin skiptu litlu máli.

Tíminn leið og 1. desember bað mig góðan daginn er ég vaknaði upp fyrir allar aldir, klukkan var 5:45 um morguninn og átti ég erfitt með svefn vegna komandi leiks gegn Tottenham í Deildarbikarnum. Vorum við komnir í langt á leið og tap í næsta leik yrði stórt svekkelsi fyrir mína menn. Ég reis á fætur og settist fyrir framan tölvuna sem gerði ekki annað en að öskra á mig að ég ætti fullt af ólesnum tölvupósti, ég þaggaði niður í henni góðlátlega og hóf lesturinn… Þarna kom fram hvaða leikjum yrði sjónvarpað hjá mér á næstunni; Liverpool, Blackburn og Chelsea, og það læddist um mig lúmskur hrollur þegar ég las þetta því engin smálið þarna á ferðinni. En mér leið strax betur þegar ég las næsta póst því þar vildi stjórnin láta mig vita að þeir væru mjög ánægðir með árangur minn hjá félaginu til þessa og séu fram á langa og góða samvinnu með mér.

Dagurinn var ekki lengi að líða og áður en ég vissi af var klukkan að verða 19 og aðeins einn veggur á milli okkar og liði Tottenham. Ég fór í gegnum leikkerfið okkar í síðasta skiptið og lagði aukna áherslu á sóknina svo var komið að því, við skokkuðum rólega inná völlinn og ég kinkaði kolli til Jacques Santini sem brosti út í annað á móti mér. Byrjun leiksins braut í bága við allt sem ég gat óskað mér og komust Tottenham yfir eftir aðeins 10 mínútur, leikurinn var svo hrikalega viðburðalítill þangað til rétt fyrir hálfleik þá skoraði Darren Fletcher eftir fallega aukaspyrnu frá Giggs, og ekki seinna vænna því ég var búinn að naga af mér fingurneglurnar og kominn hálfa leið með að afreyma skóinn. Í hálfleik voru menn þungbrúnir, leikurinn hafði ekki þróast eins og til stóð en voru menn þó á því máli markinu okkar skyldi lokað héðan í frá og allur kraftur lagður í að komast yfir. Giggs nefndi við mig að hann væri orðinn útkeyrður og hefði varla orkuna til þess að klára leikinn, enda ekki furða þar sem hann hafði verið að spila lang best þar sem af var komið leiks. Ég lofaði honum skiptingu seinna í leiknum en ég þyrfti á honum að halda til að komast yfir, og að því sögðu héldum við aftur út á völlinn.

Það fór ekki á milli mála hverjir komu ákveðnari til leiks því á fyrstu 6 mínútunum komust Tottenham ekkert yfir miðju með knöttinn og áður en leið á löngu tókst Nistelrooy að skora með gullfallegri aukaspyrnu. Stuttu síðar ákvað ég að gefa Giggs verðskuldaða hvíld og staðgengill hans varð Vaagan Moen. Þegar 25 mínútur voru eftir fékk Saha að koma inná á kostnað Nistelrooy og gaf strákunum merki um að hægja leikinn aðeins og huga að vörninni. Það sem svo eftir var af leiknum var alger einstefna og sannaði Roy Keane það í verki með því að skora á 86. mínútu og þar með innsigla sætan sigurinn. Það þurfti enginn að spyrja af því hver maður leiksins væri því Giggs átti þann titil meira en skilið.

Ég hrósaði mínum mönnum fyrir góðan leik og kvaðst sjá þá á æfingu á morgun, að því búnu hélt ég heim á leið. Þegar heim var komið hlammaði ég mér í sófan með dagblaðið í annari og léttbjór í hinni, ferðinni var heitið á íþróttasíðurnar og sá ég þar mér til mikillar furðu að Arsenal hafði tapað 0-1 í deildarbikarnum fyrr um daginn gegn fyrstudeildarliðinu Wolves. Það þótti mér aldeilis gleðifréttir því þar með urðu líkurnar að ég myndi lenda gegn þeim í úrslitum að engu, desember hafði svo sannarlega byrjað vel þetta árið. Með þessar hugsanir í kollinum kláraði ég bjórinn og sofnaði með bros á vör.