The Spireites 03/04 part 2 Þetta er annar hluti trílógíu (kannski fleiri en 3 hlutar) minnar um Chesterfield. Þessi hluti er mun ítarlegri en fyrsti hlutinn þannig að hann er mjög langur.

Sumarið:
Þetta sumar var EM í knattspyrnu haldið og var Ísland meðal liðanna sem kepptu á því eftir að hafa unnið Wales í umspili. Íslendingar lentu með Grikklandi, Írlandi og Frakklandi í riðli og eftir ótrúlegan 7-3 sigur á Grikkjum í fyrsta leik var útlitið bjart en liðið tapaði gegn Frökkum og gerði jafntefli gegn Írum en það skaðaði ekki því að liðið lenti í öðru sæti sökum betra markahlutfalls. Íslenska landsliðið var komið í 8-liða úrslit EM en þar mætti liðið Hollandi og vannst 1-0 sigur í þeim leik. Ísland dróst næst á móti Englendingum en sá leikur lyktaði með sigri Íslands eftir vítaspyrnukeppni sökum markalauss jafnteflis. Þessu hefðu fáir trúað að Ísland kæmist í úrslitaleik EM en þar voru mótherjarnir Frakkar sem höfðu lagt Ísland að velli í riðlakeppninni. Leikurinn fór 1-0 Íslandi í vil með ótrúlegri heppni eftir að hafa verið undir pressu allan leikinn. Í þessu íslenska liði voru tveir af mínum mönnum eða þeir Hjálmar Þórarinsson og Jóhann Þórhallson.

En aftur að Chesterfield þá var fjárhagurinn kominn í gott lag eftir að hafa haldið aftur að mér í leikmannakaupum en selt fyrrnefnda leikmenn. Ég hafði fengið 3,8 milljónir í tekjur á fyrsta tímabilinu en kostnaðurinn hljóðaði aðeins upp á 2,2 milljónir. Stjórnin hafði leyft mér að kaupa leikmenn fyrir £227.000 en það var nú ekkert miðað við önnur lið í fyrstu deildinni. Heimavöllur liðsins, Saltergate, var stórt vandamál þar sem hann tók aðeins 7417 manns og þar af aðeins 3165 í sæti. Stjórnin vildi ekki stækka völlinn þannig að ég þurfti að reyna að fá tekjur á annan hátt en af miðasölu.

Ég varð fyrir mikilli blóðtöku þegar ég missti Chris Brandon til Luton ókeypis. Á miðju tímabilinu í annarri deildinni hafði ég náð að tryggja mér Orra Frey Óskarsson frá Þór en þetta voru ótrúleg kaup. Annars voru félagaskipti svona:

Keyptir:
Orri Freyr Óskarsson frá Þór á £20.000
Bradley Hughes frá Grimsby á £130.000
Kevin Maher frá Huddersfield á £30.000
Ben Chapman frá Yeovil á £18.000

Seldir:
Glynn Hurst til Oxford ókeypis
Chris Brandon til Luton ókeypis
Michael Bunn til Watford á £40.000

Fyrir Michael Bunn fékk ég þrjá unga leikmenn frá Watford upp í kaupin. Kevin Maher og Ben Chapman voru keyptir til að fá meiri breidd í hópinn. Allir leikmennirnir komu eða fóru áður en tímabilið hófst.

Ekki byrjaði tímabilið á góðu nótunum en Jóhann Þórhallsson meiddist í 3 mánuði stuttu fyrir fyrsta leik en ég sendi hann í endurhæfingu í fjóra mánuði til að sleppa við frekari meiðsl hjá honum. Ég fékk Vincent Péricard frá Portsmouth lánaðan til að hafa sem varamann ef eitthvað skildi gerast fyrir hina framherjana.

Ég tók 7 æfingaleiki og þar á meðal æfingaferð til Íslands sem endaði með 2 sigrum og einu jafntefli en annars fóru æfingaleikirnir á þann veg að ég vann 5 leiki, tapaði 1 og gerði 1 jafntefli. Ég var bjartsýnn á gengi liðsins og spáði sjálfur sæti í umspili en aftur voru spárnar mér ekki hliðhollar og var spáð falli annað árið í röð af veðbönkum, stjórninni og stuðningsmönnunum.

Það átti eftir að koma í ljós að tímabilið á undan var bara lognið á undan storminum þótt það hljómi ótrúlega. Fyrsti leikurinn í fyrstu deildinni byrjaði mjög vel. Heimaleikur gegn Sheffield United, sem hafði verið spáð sæti í efri hlutanum, sem vannst 3-0. Næst var leikur í deildarbikarnum á móti Stockport og var ég svolítið smeykur fyrir þann leik eftir hrakfarirnar frá því í fyrra en þessar áhyggjur voru óþarfar því að leikurinn fór 5-0 mér í vil og allir hæstánægðir í Chesterfield. Næstu sjö leikir í deildinni voru í beinu framhaldi frá fyrra tímabili því að sigur vannst í þeim öllum og liðið var nú í fyrsta sæti með fullt hús stiga eftir 8 leiki. Fyrsta deildin var greinilega ekki jafn erfið og ég hafði búist við þó að maður sá að liðin voru í öðrum gæðaflokki en liðin í annarri deildinni. Nú var maður byrjaður að fá fréttir þar sem stóð: “Despite being many peoples’ favourites for the drop, Chesterfield have been playing superbly, but surely it won’t last for much longer”. Þessar fréttir urðu ansi pirrandi þegar líða tók á tímabilið eftir hvern sigur.

Næst á dagskrá var leikur gegn Rushden í deildarbikarnum en sá leikur endaði með 0-0 jafntefli og endaði leikurinn í vítaspyrnukeppni. Vítaspyrnukeppnir höfðu farið illa með mig á seinasta tímabili og var ég ekki hinn spenntasti yfir því hvernig leikurinn myndi ráðast. Þessi vítaspyrnukeppni var algjör andstaða þeirra fyrri því að sigur vannst 3-0. Núna voru komnir 7 leikir í röð án þess að fá á sig mark og greinilegt að vörnin og markmaðurinn voru í essinu sínu á þessum hluta tímabilsins. Skemmst er frá því að segja að næstu 5 leikir enduðu með sigri Chesterfield þar sem liðið skoraði oftast 3 mörk í leik. Chesterfield hafði dregist gegn Liverpool í deildarbikarnum og átti leikurinn að vera á Anfield. Ég var mjög ánægður með þennan leik og gott að fá að leika gegn stórliði eins og Liverpool sem voru UEFA Cup meistarar og einnig sigurvegarar í European Super Cup. Þetta var klárlega erfiðasti leikurinn á tímabilinu til þessa því að Liverpool var með stöðuga pressu og áttu mjög mörg skot sem fóru sem betur fer ekki í netið hjá Bradley Hughes sem stóð vaktina í markinu. Ólafur Valdimar setti eitt mark á 76. mínútu og þar við stóð og var því sigurinn í höfn eftir ótrúlega góða baráttu að hálfu minna manna.

Næstu fjórir leikir í deildinni voru mjög erfiðir þó að sigur vannst í þeim öllum en hver leikur vannst aðeins með einu marki. Sigurgangan í deildinni hélt áfram en næsti leikur í deildarbikarnum var gegn Manchester United á Old Trafford. Annað stórlið og þetta var vægast sagt spennandi leikur. Hjálmar braut ísinn á 65. mínútu með marki en Diego Forlán jafnaði metin á 87. mínútu þannig að leikurinn fór í framlengingu. Orri Freyr Óskarsson skoraði á 97. mínútu en 10 mínútum síðar jafnaði Diego Forlán í annað skipti. Allt stefndi í framlengingu en þá kom Orri Freyr og skoraði sitt annað mark á 118. mínútu og Chesterfield því komið áfram. Þá var komið að 8-liða úrslitum og hvað annað en enn eitt stórliðið, Chelsea, var næst í röðinni. Leikurinn fór fram á Stamford Bridge og endaði leikurinn með 2-1 sigri Chesterfield með mörkum frá Hjálmari en Eiður Smári skoraði fyrir Chelsea. Þá var liðið bara komið í undanúrslit eftir að hafa lagt 3 mjög sterk lið að velli. Sigurgangan hélt áfram í deildinni og gat fátt stoppað Chesterfield hraðlestina sem var á ótrúlegu skriði með hvern sigurinn á fætur öðrum. Næst var komið að fyrsta leiknum í bikarkeppninni gegn Gillingham á útivelli sem vannst 2-0.

Næsti leikur í deildinni var glæsilegur 7-1 sigur á West Ham sem byrjaði frábærlega og var liðið komið í 4-0 eftir 18 mínútna leik en staðan í hálfleik var 6-1. Strax eftir leikinn var Glenn Hoddle rekinn frá West Ham eftir að hafa verið valtur í sessi og má segja að þetta tap hafi gert útslagið. Næst á dagskrá var fyrri viðureignin gegn Millwall í undanúrslitum deildarbikarsins. Ég er viss um að stuðningsmenn Millwall hafi verið þreyttir að tapa gegn Chesterfield því að liðin kepptu 7 leiki þetta tímabil, þar af einn æfingaleik sem Millwall vann en Chesterfield sigraði í hinum 6. Liðin kepptu með þriggja daga millibili fyrst í deildarbikarnum og svo í bikarnum og enduðu leikirnir 2-0 og 4-0. Seinni viðureignin í deildarbikarnum var ansi skrautleg því að Millwall komst í 2-0 eftir aðeins 4 mínútur og voru því leikar í einvíginu jafnir. Chesterfield var hinsvegar ekki lengi að svara og skoraði Orri Freyr mark á 8. mínútu. Millwall komst í 3-1 á síðustu mínútu fyrri hálfleik og virtist Chesterfield því vera að tapa sínum fyrsta leik á þessu tímabili. Það vildi ég hinsvegar ekki láta gerast og setti í fluggírinn. Mörk frá Orra Frey og Jez Mitchell á 68. og 72. mínútu jöfnuðu leikinn og þannig fóru leikar. Chesterfield var því komið í úrslit deildarbikarsins gegn Fulham. Á tímabilinu 26. jan til 16. mars kepptu Chesterfield og Millwall alls 4 leiki. Næsti leikur í bikarnum var gegn Charlton sem ég var heppinn að vinna 3-0 því að Bradley Hughes meiddist á 54. mínútu í stöðunni 2-0. Ég sem hafði ekki haft varamarkmann á bekknum allt tímabilið þurfti því að láta Gareth Davies inn á og var heppinn að hann fékk ekki á sig eitt einasta skot það sem eftir lifði leiks.

Sigurgangan í deildinni hélt áfram og varð liðið meistari þann 26. febrúar eftir 2-1 sigur á Cardiff á heimavelli. Chesterfield s.s. búið að vinna fyrstu deildina án þess að hafa tapað leik eða gert jafntefli. Þetta met verður sennilega aldrei slegið og því liðið búið að skrá sig í sögubækurnar. Nýbakaðir fyrstu deildar meistarar mættu gallvaskir til leiks á The Millenium Stadium í Cardiff í úrslit deildarbikarsins gegn Fulham. Chesterfield komst í 2-0 eftir 28 mínútna leik með mörkum frá Ólafi Valdimar og Orra Frey en staðan í hálfleik var 3-1 Chesterfield í vil. Leikurinn endaði svo með 4-2 sigri Chesterfield og liðið því búið að vinna sinn fyrsta stóra bikar. Eitt það skemmtilegasta við þennan leik var að Bradley Hughes átti tvær stoðsendingar í þessum leik en hann er einmitt markmaður liðsins. Hann gaf alls 4 stoðsendingar þetta tímabil og verður það að teljast nokkuð sérstakt. Nú var bara að einbeita sér að bikarkeppninni enda eina keppnin sem var einhver spenna í hjá mér en næsta viðureign þar var gegn Aston Villa á Villa Park. Sá leikur var skemmtilegur og spennandi og endaði með naumun 3-2 sigri Chesterfield.

Nú voru fjórir deildarleikir í röð þangað til að undanúrslitin í bikarnum voru gegn Manchester United. Fyrstu þrír leikirnir unnust þangað til að röðin var komin að Coventry. Þvílík hörmung sem þessi leikur var. Hann byrjaði þokkalega með marki Jamie Donnely, sem er ungur og efnilegur sóknarmaður, á 18. mínútu. Þarna hélt ég að enn einn sigurinn væri að koma en þetta reyndist vera andstæðan. Coventry menn settu 3 mörk á 18 mínútna kafla undir lok fyrri hálfleiks og leit þetta ekki vel út í hálfleik. Ég ætlaði sko ekki að fara að tapa núna og stillti því upp mínu sterkasta sóknarliði og byrjaði ég á að láta Andy Rushbury inn á fyrir Jóhann Þórhallsson. Andy skoraði á 46. mínútu og var ég nokkuð bjartsýnn á að þetta hefði bara verið heppni hjá Coventry að skora 3 mörk. Það reyndist ekki rétt því að þeir skoruðu strax á 47. mínútu og gerðu út um leikinn endanlega með marki á 84. mínútu eftir að Chesterfield hafði átt 22 skot og þar af 13 á markið. Fyrsti tapleikurinn var niðurstaðan eftir 39 sigurleiki í röð í deildinni og 51 leikur í röð án þess að tapa. Eftir leikinn varð ótrúleg breyting á morale hjá leikmönnum liðsins. Fyrir leikinn voru allir 22 leikmennirnir í aðalliðinu með superb í morale en eftir leikinn voru aðeins 8 með superb. Nú varð að hrista þetta af sér og vera tilbúinn í næsta leik sem var leikur gegn Manchester United í undanúrslitum bikarsins. Chesterfield fékk draumabyrjun með marki frá Orra Frey Óskarssyni eftir 12 sekúndna leik. United var fljótt að svara fyrir sig með marki frá Ruud van Nistelrooy á 6. mínútu en hann skoraði aftur á 44. mínútu og var staðan því 2-1 í hálfleik. Nú varð að stilla í sókn og eftir margar tilraunir náði Hjálmar að setja mark á 76. mínútu en Orri Freyr fylgdi eftir mínútu síðar með sínu öðru marki. Það stefndi allt í sigur Chesterfield en United menn voru ekki búnir að gefa upp vonina og jöfnuðu leikinn á 93. mínútu og varð því að framlengja leikinn. Ekkert merkilegt gerðist í framlengingunni og þurfti að grípa til vítaspyrnukeppni. Hún endaði með 3-2 sigri Chesterfield og mikill baráttusigur að baki.

Deildin kláraðist og sigraði ég þá leiki sem eftir voru en nú var stærsti leikur tímabilsins eftir. 69.000 manns voru komin saman á Millenuim Stadium til að sjá leik Chesterfield og Tottenham, sigurlið fyrstu deildar gegn liðinu sem lenti í 4. sæti úrvalsdeildar. Flestir spáðu Tottenham sigri en sú varð ekki raunin. Orri Freyr skoraði tvö mörk fyrir hálfleik en Jamie Donnely og Ólafur Valdimar skoruðu svo tvö mörk og gerðu út um leikinn. Tottenham náði þó að skora eitt mark á 89. mínútu til að bjarga virðingunni. Nú var þetta ótrúlega tímabil búið.

Ekki var eins mikið um stóra sigra á þessu tímabili en hæst ber þó að nefna 5-0 sigur á Stockport í deildarbikarnum, 5-0 sigur á Watford í deildinni, 7-1 sigur á West Ham í deildinni og 5-0 sigur á Bolton í deildinni. 16 af þessum 22 mörkum voru skoruð af Íslendingunum í liði Chesterfield.

Liðið sem ég stillti upp var oftast svona:

GK: Bradley Hughes
DL: Alan O’Hare
DC: Steve Blatherwick
DC: Barry Laker
DR: Gus Uhlenbeek
MC: Gareth Davies
MC: Stephen Warne
FL: Andy Rushbury
FC: Orri Freyr Óskarsson
FC: Hjálmar Þórarinsson eða Ólafur Valdimar Júlíusson
FR eða AMR: Jez Mitchell

Hjálmar og Ólafur voru að skiptast á að vera framherjar en ég lét Ólaf einnig spila nokkuð á miðjunni á þessu tímabili. Stephen Warne ýtti Mark Hudson úr byrjunarliðinu og átti hann vart afturkvæmt eftir það. Steve Payne, Paul Warhurst, Jóhann Þórhallsson og Jamie Donnelly voru helstu varamenn liðsins og stóðu þeir sig með ágætum á þessu tímabili.

Í stuttu máli var tímabilið svona:

Deildin: 1. sæti – 46 leikir – 45 sigrar – 1 tap – 122 mörk skoruð – 26 mörk fengin á sig og 135 stig.
Bikarinn: Sigur - 6 leikir – 19 mörk skoruð – 6 fengin á sig.
Deildarbikarinn: Sigur – 8 leikir – 20 mörk skoruð – 8 fengin á sig.

Orri Freyr Óskarsson var maður leiktíðarinnar með 47 mörk, 22 stoðsendingar, 13 sinnum MoM og 8,15 í meðaleinkunn. Orri Freyr var markahæstur með 47 mörk en næstir voru Hjálmar, Ólafur og Donnelly með 36, 22 og 14 mörk. Andy Rushbury var enn á ný með langflestar stoðsendingar eða 33 en næstir komu Orri, Jóhann og Ólafur með 22, 15 og 14. Orri var með hæstu meðaleinkunnina eða 8,15 í 52 leikjum en þar af 7 sem varamaður. Orri var markahæstur í deildinni með 33 mörk.

Eitt það ótrúlegasta við þetta tímabil er meðalaldur leikmanna liðsins en þeir 22 leikmenn sem voru í aðalliðinu höfðu meðalaldur upp á 24,5 ár í lok tímabilsins. Þess ber þó að geta ef að varnarmennirnir væru ekki taldir með þá var elsti leikmaðurinn 28 ára.

To be continued…
He may be a son of a bitch, but he is our son of a bitch.