Þema keppnarinnar kemur sumum e.t.v. spánskt fyrir sjónir en hugmyndin er einföld. Þið berið nú sjálf ábyrgð á þema keppnarinnar. Hver og einn lætur sér detta þema í hug og þú munt framkvæma myndatöku eftir þínum eigin geðþótta.

Athugið að þetta er ekki frjálst þema.

Ef hver einasti hlutur í myndinni æpir nafnið á þemanu sem þú hefur sjálf/ur ákveðið, þá er það velheppnuð mynd í þessa keppni.

Eins og venjulega á að senda keppnismyndir inn á myndakubbinn, en þetta er sama leið og allt myndefni er sent inná áhugamálin. Hér er linkur að þeim stað:http://www.hugi.is/ljosmyndun/images.php?page=new

Hér eru reglurnar og ég mæli með því að fara vel yfir þær jafnvel þótt þú hafir áður tekið þátt:

Mikilvægt____________________

1. Keppnistímabil: 14. júlí til 25. júlí
Myndin verður að vera tekin innan keppnistímabilsins!

2. Merkja skal myndirnar svona: “Nafn myndar - Þema” (gæsalappir eiga að fylgja með). “Nafn myndar” skal skipta út fyrir nafn sem þið veljið sjálf en restin á að standa eins og hún er þarna. Dæmi um nafn á keppnismynd í þessa keppni væri “Börn að leik - Þema”

3. Ein mynd að hámarki frá hverjum þátttakenda.

4. Notandi sem sendir inn skal sjálfur hafa tekið myndina.

5. Stærðartakmörk: 400pixlar á smærri kannt er lágmarkstærð. Stærsta sem Hugakerfið hleypir inn er 1024x786 pixlar.
___________________________

Það er líka nokkuð sem ég ætla að segja:
Þessi keppni er haldin þín vegna notandi góður. Þær hafa lifað ágætu lífi hingað til þó margir segi að ýmislegt mætti betur fara (réttilega). Það breytir því ekki að ef þú sendir inn mynd í þessa keppni og næstu keppnir ertu að stuðla að framhaldi hennar og viðhalda metnaði þeirra sem að henni standa. Það er mér nefnilega mikils virði þegar vel tekið er í keppnirnar og myndirnar flæða frá fyrsta degi inn, en það hefur gerst nokkrum sinnum á þessum tveimur árum sem ég hef verið með keppnirnar ( ásamt Kindinni á tímabili, takk fyrir það!)

Eitt enn:
Það getur verið mjög erfitt að taka mynd af einhverju sem á að fara í keppni sem hæfir henni. Meirihluti þeirra sem klikka á að senda inn eru að öllum líkindum þeir sem eru að biðja um fleiri keppnir og bíða með myndavélina tilbúna, en svo þegar keppni byrjar með þema sem kemur á óvart, missa móðinn. Þetta þekki ég vel. Það þarf stundum að rífa sig upp og það getur verið erfitt, en í mörgum tilfellum hefur það borgað sig.

Eins og venjulega er ég opinn fyrir öllum ferskum hugmyndum um framkvæmd og skipulagningu ljósmyndakeppnanna okkar.