Misheppnuðustu myndavélar allra tíma? Well, ég hef ákveðið að standa við hótunina og skrifa um mína fyrstu myndavél. Þetta var Kodak Disc 6000 sem ég fékk í fermingargjöf. Í sjálfu sér voru vélarnar hvorki betri né verri en t.d. 110 vélar. Vegna þess að filman var á disk formi en ekki upprúlluð voru vélarnar flatari og komust auðveldlega í vasa og veski. Reyndar má sjá svipaða hönnun í stafrænum vélum í dag, enda kannski ekki furða, það sem það þarf ekki að hanna stafrænar vélar utan um filmuhylki.
Disk vélarnar voru kynntar árið 1982 með miklum látum, en náðu aldrei mikilli útbreiðslu, þar sem Kodak klikkaði á grundvallaratriðum eins og myndgæðum. Enda var disk filman með aðeins 8x10mm ramma, minna í öllum öðrum kerfum. Filman var sérstök, þetta var stíf hringlaga filma með 15 römmum raðað í hring. Ég man aldrei eftir að hafa getað tekið sæmilegar myndir með þessari vél, flassið var sjálfvirkt og flassaði þegar ég átti síst von á því, og mig minnir að vélin hafi fært filmuna áður en maður smellti af, ekki eftir, amk fannst mér líða óralangur tími á milli þess sem ég smellti af og þess að vélin tók mynd.
Guði sé lof að Kodak hætti að framleiða þessar vélar 1990 og filmuna 1998, stuttu eftir að APS kerfið kom á markað. Ég sakna disk vélanna ekki, hinns vegar ætti ekkert myndavélasafn vera án þessara véla.