Upphaf SLR Hvernig varð SLR (Single Lens Reflex) myndavélin til?
Þegar fólk horfir í gegn um SLR vél í fyrsta sinn er fyrsta hugsunin oftast sú að svona á að taka myndir, og bara svona. Svona á að smíða myndavélar, myndavél þar sem þú sérð nákvæmlega það sem sem filman sér. Allt annað er bara rugl. Saga SLR vélarinnar er hægt að rekja aftur til 1932, þegar Þýskur arkitekt að nafni Kurt Straudinger fékk einkaleifi á myndavél með fimmhliða glerstrendingi (Pentaprism).
Á fjórða áratugnum flakkaði Kurt um þýskaland og heimsótti alla myndavélaframleiðendur og reyndi að sannfæra þá um að SLR væri tækni framtíðarinnar, en án árangurs. Þeir voru hrifnir af hugmyndinni en enginn þorði að leggja pening í hana. Það er kannski skiljanlegt, á þessum tíma var hreinlega ekki til nógu gott gler til að prismað (er til íslenskt orð?) hleypti nógu ljósi í gegn um sig. Auk þess voru ýmis önnur vandamál, eins og hvernig ætti ljósmyndarinn að stilla fjarlægð í svona myndavél.
En boltinn var byrjaður að rúlla, Zeiss Ikon (Jebb, þetta er sama fyrirtækið) bjó meira að segja til prótótýpu úr tré 1938, en upphaf seinni heimstyrjaldarinnar gerði það að verkum að Zeizz fékk önnur verk. En verkfræðingur hjá Zeiss, Hubert Nerwin þrjóskaðist við og vann ásamt öðrum í frítíma sínum að hugmyndinni og náðu að búa til vél sem virkaði fullkomnlega.
Zeiss Ikon fékk einkaleyfi á hugmyndinni 1941 og 1943 sagði stjórn Zeiss frá nýjum og spennandi vörum en sögðust verða að bíða þangað til stríðið væri búið.
En stríðið næstum gerði út af við Zeiss Ikon. Zeiss tók tvær Contax II vélar og breytti þeim þannig að þeir gátu skipt auðveldlega um prismu. Báðar vélararnar hurfu þegar Rússar hertóku Dresden vorið 1945, en önnur þeirra birtist um haustið hjá Rússneskum hermanni. Hann kvartaði yfir því að vélin væri biluð og krafðist þess gert væri við hana. Tæknimaðurinn sem tók við vélinni annaðhvort áttaði sig ekki á því að þetta var upprunalega vélin eða var undir þrýstingi og einfaldlega gerði við vélina. Síðan hefur ekkert til þeirra spurst.
Eftir stríðið lenti Zeiss í meiri hremmingum, verksmiðjur þeirra þar sem aðal framleiðslan var lentu undir hernámi Rússa, og því ákvað stjórn Zeiss að hefja framleiðslu á ný í Stuttgart. Þetta verk féll á herðar Hubert Nerwin, sem áður hafði smíðað frumgerðirnar.
Undir mjög erfiðum kringumstæðum, tókst Zeiss að að hanna og hefja framleiðslu á fyrstu SLR vélinni, Contax S, sem var sýnd óopinberlega á St. Erik sýningunni í Stokkhólmi haustið 1948. Ári síðar var vélin kynnt opinberlega á sýningu í Leipzig.
Ég hef sleppt miklu úr, en fáar vélar hafa átt jafn dramatíska fæðingu eins og þessi. Enn þann dag í dag er 35mm SLR vélin vinsælasta og fjölbreyttasta myndavélagerðin. Hægt er að fá þessa vélar í öllum verðflokkum og engin kerfi bjóða upp á eins mikið af aukabúnaði og þær.

Jón.