Vill byrja á að segja að ég veit að þetta er nú varla efni í grein en það er ekki komin inn grein núna í rúmlega mánuð þannig að vonandi sleppur þetta við skítkast út af því.

Ég tel mig vera aðallega landslagsljósmyndara þótt ég taki mikið af portrett og dýralífsmyndum og ég er alltaf að leita að nýjum og frekar óþekktum stöðum sem hafa ekki verið myndaðir frá öllum mögulegum sjónarhornum, eins og t.d. Gullfoss, Landmannalaugar og Þingvellir.

Ég væri til í að heyra í ykkur varðandi þetta, hvort þið lumið ekki á einhverjum stöðum sem eru ekki jafn vel þekktir og þessi stóru nöfn en eru engu að síður mjög fallegir og endilega láta fylgja leiðbeiningar um hvernig á að komast þangað.

T.d. á ég mér nokkra. Þjórsárdalur finnst mér mjög skemmtilegt svæði og þá sérstaklega Gjárfoss, þar liggur foss sem lítur út eins og “Y” og myndast mjög vel. Þið getið fundið fossin rétt hjá þjóðeldisbænum, þið þurfið einungis að fylgja ánni sem liggur rétt fyrir neðan bæinn.

Holtsdalur er annað svæði sem ég kann mjög vel við en er lítið þekkt. Ef þið hafið farið að skoða Fjarðárgljúfur þá er þetta ekki mikið lengra, þið einfaldlega eltið vegin og þið vitið að þið eruð á réttri leið ef að vegurinn verður það mjór að einungis einn bíll kemst fyrir á honum og það sé næstum hægt að horfa beint niður 100m ef þú stingur hausnum út um bílstjóragluggan. Í botninum á Holtsdal er mjög fallegur foss.

Núpsstaðaskógur er svo staður sem ég mæli líka með, að vísu ekkert óþekktur en ég þekki samt fáa sem hafa lagt leið sína þangað. Það er rúta sem fer daglega þangað, hún fer frá litlu kirkjunni sem er rétt fyrir vestan Lómagnúp á morgnanna, man þó ekki nákvæmlega hvenær en minnir um 8-9 leytið og leggur á stað frá núpsstaðaskógi um 2-3 leytið (3 ár síðan ég var þarna síðast, minnið farið að gefa sig greinilega)