Filterar eru gler eða plast plötur sem festar eru framan á linsur myndavéla og hlutverk þeirra er að hafa áhrif á ljósið sem skráir myndina á filmu/skynjara. Hér að neðan verður farið á hunadavaði yfir helstu flokka filtera. Taka skal fram í upphafi að þó talað sé um filmu hér þá á allt efnið jafnvel um digital myndatöku. Eilítið verður rætt um filtera og digtal í lok greinarinnar.

Bakgrunnur - Litir
Til þess að skilja filtera og hvað þeir gera er nauðsynlegt að skilja samsetningu litrófsins. Sýnilegt ljós er saman sett úr þremur frumlitum (primary colours) og þremur afleiddum litum (secondary colours). Frumlitirnir eru Rauður, Grænn og Blár (RGB). Afleiddu litirnir eru gulur, cyan og magneta. Í prentiðnaði við prentun á myndum er svörtum bætt við þetta og þannig er skamstöfunin CMYK tilkomin.
Hver afleiddur litur er sambland af tveimur grunnlitum og er andstæðulitur (complementary colour) þriðja frumlitarins. Þannig er gulur andstæðulitur við blátt, Cyan er andstæðulitur við rautt og magneta við grænt.

Flokkun filtera
Hægt er að skipta filterum niður í fimm megin flokka:
- Neutral.
- B/W.
- Litabreytinga filterar (Colour conversion).
- Litajafnvægi filterar (Colour balancing).
- Effects filterar.

NEUTRAL FILTERAR
Neutral filterar hafa lítil sem engin áhrif á endanlegan lit myndarinnar og þessi flokkur inniheldur hina sívinsælu UV (haze) og Skylight filtera sem margir hafa ávalt framan á linsunum sínum. Einnig eru í þessum flokki Neutral Density (ND) filterar og polarising filterar en báðir ND og polarised filterar eru gráir.

UV og Skylight filterar
Útfjólublá geislun (UV-radiation) er í litrófi andrúmsloftsins og er ósýnileg augum manna en skráist á filmuna. Þetta sést mest áberandi í landslags myndatökum sem teknar eru í mikilli hæð eða við strendur. Til að losna við þetta er UV filter nauðsynlegur og ef filterinn er vandaður má hafa hann alltaf á linsunni. Kosturinn við það er eins og áður sagði að filterinn hefur bara áhrif á UV ljós og sem auka bónus þá má líta á hann sem nokkurskonar hlíf fyrir linsuna sem verndar hana gegn rispum.
Skylight filter blokkar einnig UV ljós en hefur einnig lítils háttar áhrif á samsetningu ljósins sem skráist á filmuna. Skuggar fá þannig smá bláma og hin örlitli vottur af bleiku í filternum nær fram neutral litum í skugga þegar notuð er slides-filma. Skylight filterar eru yfirleitt merktir sem 1A eða 1B sem er sterkari filter.

Nutral Density Filterar
ND- filterar eru aðalega notaðir á tvennan hátt. Það er í fyrsta lagi til að grynnka fókus planið (Reduce depth of field (DOF)). Dæmi: Myndavél stillt á iso 100 með hámarks lokhraða upp á 1/1000. Ljósmyndari vill einangra viðfangsefni sitt með því að hafa grunnt fókusplan, en ljósmælir gefur upp f/8 þá er þetta ekki hægt. Með því að setja ND filter á linsuna getur hann “tapað” ljósi upp á nokkur stopp og komið þannig ljósopinu upp í f/4 eða meira og þannig náð hinu grunna fókusplani (Meira er um þetta í greinunum “nokkur orð um ljósop” og “MACRO lítið en skemmtilegt” hér á hugi.is).
Önnur klassískari notkun á ND filter er til að minnka lokhraða. Þetta er meðal annars til að fá rennandi vatn til að taka á sig rjóma-blæ.

Polarising filter
Polarised ljós er ljós sem endurkastast af gljáandi hlutum og einnig af hluta bláma himinsins. Polarising filter getur dregið úr áhrifum polarised ljóss og eru áhrifin greinileg þegar horft er í gegnum myndavélina. Polariser er einn af gagnlegri filterum sem eru á markaðnum. Hann er grár á lit og filterinn sjálfur er á hring sem hægt er að snúa. Með því að snúa hringnum næst fram effectinn. Þessi filter er notaður til eftirfarandi:
- Minnka að eyða endurskini frá flötum (t.d. vatni).
- Dimma bláan himinn sem eru í 90° horni frá sólu.
- Auka lita mettun (colour saturation).

SVART HV'ITIR FILTERAR - B&W
Við myndatöku í svart hvítu eru notaðir litaðir filterar til að ná fram mismunandi gráum tónum. Hinir klassísku B&W filterar eru:
- Gulur (Y2) sem minnkar lýsingu á bláum himni og er svona nánast standard filter í landslags myndatöku.
- Appelsínugulur (O2 - Orange) minnkar einnig lýsingu á bláum himni
- Rauður (R2) er dekkstur af filterunum hingað til og gerir bláann himinn mjög dokkann og einnig undirlýsir hann grænan þannig að gras og laufblöð verða ljósari.
- Grænn (G) er oftast notaður við andlitsmyndatöku (portrait) þar sem hann gefur jafna tóna á skinn og rauðir blettir (bólur og þess háttar) hverfa nánast.


LITBREYTINGA FILTERAR (Colour conversion).
Litbreytinga filterar eru notaðir til að laga litbrigði sem verða þegar myndir eru teknar innandyra við ljós frá ljósaperum. Þetta er atriði sem digital vélar geta að mér skilst auðveldlega ráðið við með breytingum í “White Balance” eða slíku gimmikki. Greint er á milli tveggja gerða af ljósaperum í þessu. Tungsten og Fluoroscent. Tungsten eru venjulegar ljósaperur en Fluroscent eru þessar löngu sem oft eru á skrifstofum. Til að leiðrétta ljós frá tungsten perum eru helst notaðir filterar í 80-seríunni eins og 80A og 80B. Þessir filterar eru bláir og eru notaðir til að jafna lit þegar tekið er á dagsbirtu filmu (daylight film). Einnig eru til sérstakar tungsten filmur sem er þá einnig hægt að leiðrétta fyrir dagsbirtu. Sjá töflu hér að neðan.

Daylight film Tungsten film
Dagsljós Enginn 85B
3400K 80B 81A
3200K 80A Enginn

Fluorescent perur gefa yfirleitt græna slikju á myndir og til að losna við það er notast við magneta filtera auk gulra eða cyan filtera. Til er svokallaður FLD filter sem á að ráða við fluorescent lýsingu en yfirleitt dregur hann einungis úr en eyðir ekki grænu slikjunni. Það eru víst 6 gerðir af fluoroscent perum og þarf að nota mismunandi filtera fyrir hverja gerð. Ráðið er því einfaldlega að slökkva á þessum perum og reyna að nota aðra lýsingu.

LITAJAFNVÆGIS FILTERAR (Colour balancing).
Litajafnvægis filterar eru notaðir til að hafa áhrif á liti í myndinni. Yfirleitt eru þeir notaðir til að “kæla” eða “hita” myndir. Þessu er náð fram með filterum númer 81 og 82. 81 gefur heita liti (gulur) og 82 kalda liti (blár). Þessir filterar eru til í mismunandi styrkleikum og svo dæmi sé tekið þá er 81 veikari en 81A sem er þá veikari en 81B o.s.fv. Persónulega hef ég oft 81B á linsunni í staðinn fyrir UV þar sem að hann vermir myndina aðeins og fólk virkar þá aðeins brúnna (eða íslendingar minna fölir).

EFFECTA FILTERAR
Í þessum flokki eru filterar sem mynda stjörnur, sexhyrninga og svo framvegis. Í stuttu máli eru þessir filterar drasl. Ein mikilvæg undantekning á þessu eru þó graduated gráir filterar ND-Grad. Þessi filter er þannig að neðri hluti hans er gegnsær en efri hlutinn er grár líkt og á ND filter. Þegar farið er frá glæra hlutanum til þess gráa þá smá gránar filterinn þannig að það eru ekki skorp skil í honum. ND-Grad eru notaðir til að jafna lýsingu milli hluta myndar. Hver kannast t.d. ekki við að hafa annaðhvort yfirlýstan himinn og rétta lýsingu á megin viðfangsefni eða rétta lýsingu á himni og undirlýst meginviðfang. ND-Grad getur leiðrétt þetta. Það er gert með því að setja gráa- hluta filtersins yfir himininn og þannig jafna lýsinguna yfir myndflötinn.

Að kaupa inn filtera
Filterar eru nokkuð dýrir og nokkur atriði sem vert er að hafa í huga. Eins og í öllu þá kosta góðir filterar meira en lélegir og sum merki eru betri en önnur. Þannig þykja B+W betri en Hoya t.d. Ef maður á mikið af linsum sem hafa mismunandi skrúfganga framan á sér getur verið mjög dýrt að koma sér upp afbrigðum af filterum sem ganga á allar linsurnar. Plötufilterar eru svar við þessu. Þá eru filteranir plötur sem rennt er í raufar á nokkurskonar millistykki sem skrúfað er framan á linsuna. Tvö merki eru ráðandi í þessu. Lee og Cokin og þykir Lee fínna enda dýrara.

Filterar og Digital
Nú á ég ekki digital myndavél sjálfur en ég tel að filterar séu alveg jafn mikilvægir í þeim heimi eins og þegar notuð er filma. Oft heyrist samt sú rödd að filterar séu óþarfir því að allt megi laga eftirá í Photoshop. Það er dáldið til í því en þó má benda á að það sem ekki skráist af sensornum er ekki hægt að laga. Þarna á ég við aðstæður þar sem ND-Grad kæmi sér vel. Þó svo að það megi lýsa hluta mynda í photoshop eftir á þá er ekki hægt að ná jafnri lýsingu á mynd sem er undirlýst að hluta eftir á. Svipað á einnig við um polariser filter. Svo er það auðvitað stór hluti af ljósmyndun að hugsa út myndina áður en smellt er af en ekki bara hugsa “ég redda þessu á eftir í tölvunni”.

Phoca

Greinin er að stórum hluta byggð á kafla í bókinni:
Photographic Lighting 2nd edition, eftir John Child og Mark Galer útgefin af Focal Press 2002