Lítið en skemmtilegt - MACRO myndataka

Ein af skemmtilegri greinum ljósmyndunar er myndataka af litlum hlutum eða svokölluð Macro-myndataka og fjallar þessi grein um hana. Helstu viðfangsefni Macro ljósmyndara eru plöntur og skordýr en hann er engan veginn bundinn við það. Fyrst verður fjallað um skilgreiningu á hugtakinu, hvaða útbúnað og að lokum fylgja nokkur ráð til þeirra sem vilja spreyta sig við þetta.

Skilgreining:
Margar myndavélar hafa svokallaða Macro stillingu, þetta á sérstaklega við myndavélar sem ekki er hægt að skipta um linsu. Þá er einnig algengt að linsur sem keyptar eru fyrir SLR vélar séu með Macro stillingu einhverstaðar. Í lang flestum tilfellum er þó ekki hægt að taka Macro myndir með þessum útbúnaði. Ástæðan er sú að Macro myndataka felur í sér að taka myndir í skalanum 1:1. Þetta þýðir að ef tekin er mynd af 1 fersentimetra hlut (1 cm^2) þá þekur hann sama flatarmál á filmunni/ljósflögunni. Svo náttúrulega þegar myndin er sett á pappír þá virkar þetta sem stækkun.

Útbúnaður:
Til að taka Macro myndir þarf SLR myndavél (hægt að skipta um linsur) og Macro-linsu. Macro-linsur eru frábrugðnar venjulegum linsum að því leiti að hægt er að stilla fókusinn mun nær en á venjulegum linsum. Macro linsur eru nánast alltaf fastar þ.e. ekki zoom. Um auðugan garð er að gresja þegar valin er Macro-linsa og gott er að hafa eftirfarandi í huga:
- Að hægt sé að fókusa niður í 1:1
- Lengdin sé helst ekki styttri en 90mm
- Autofókus skiptir ekki miklu máli í Macro því er óþarfi í raun að gefa meira fyrir USM.
Í Practical Photography Nov 2002 heftinu eru dómar á nokkrum linsum sem ég læt fljóta með.
Tamron 90mm f/2.8, Score: 93%, Verð 370 GBP
Sigma 105mm f/2.8, Score: 92%, Verð 350 GBP
Canon 100mm f/2.8 USM: 93%, Verð 700 GBP
Minolta 105mm f/2.8, Score 91%, Verð 625 GBP
Nikon 105mm f/2.8, Score 91%, Verð 780 GBP
Sigma 180mm f/3.5, Score 89%, Verð 750 GBP
Nikon 70-180mm f/4.5-5.6, Score 90%, Verð 1000 GBP
Canon 180mm f/3.5 USM, Score 90%, Verð 1700 GBP
Þessar tölur ætti að taka með fyrirvara þar sem þetta blað á það til að fara mjúkum höndum um Sigma og Tamaron líklega vegna þess að þeir auglýsa mikið í blaðinu. Persónulega er ég á þeirri skoðun að best sé að vera með linsur frá framleiðanda myndavélarinnar þ.e. ef þú átt Nikon þá notarðu Nikon linsur. Auk þess á máltakið “You get what you pay for” hvergi betur við en í ljósmyndun.

Macro myndataka
Segja má að flest vandamál sem maður rekst á í venjulegri myndatöku rekist maður á í ríkara mæli í Macro. Fyrsta vandkvæðið er að þegar fókusað er niður að 1:1 þá minnkar fókus-planið mikið. Þetta þýðir að dýptin minnkar. Ef til dæmis tekin er mynd af pöddu þá er kannski búkurinn í fókus en ekki hausinn og ekki greinin sem paddan situr á. (Nánar má lesa um þetta vandamál í grein minni “Nokkur orð um ljósop” hér á huga.is). Ráðið við þessu er að minnka ljósopið og yfirleitt þarf að fara niður fyrir f/11. Þannig er algengt að taka á f/22 eða minna. Þetta leiðir svo aftur til þess að lokhraði verður lítill og það þýðir að ekki er hægt að halda á myndavélinni meðan smelt er af. Af þessum sökum er nauðsynlegt að nota þrífót.

Flestir eru á því að þrífótur sé með nauðsynlegri hjálpartækjum við myndatöku og á þetta sérstaklega við um Macro-myndatöku. Aftur á móti eru þrífætur frekar leiðinlegir í uppsetningu en við því er ekkert að gera. Þegar keyptur er þrífótur er rétt að hafa í huga að því þyngra sem helvítið er því betri og stöðugri er hann. Einnig til að hægt sé að nota hann við Macro myndatöku er gott að hægt sé að glenna fæturna það mikið út að myndavélin nemi nánast við jörð. Þá er einnig gott ef hægt er að snúa miðsúlunni við þannig að þrífótshausinn snúi niður. Með því móti er hægt að koma vélinni alveg niður á jörð. Gallinn við þetta er að þá er vélin á hvolfi og getur af þeim sökum verið nokkuð erfitt að finna takana en það venst. Sjálfur á ég Manfrotto Nat sem reynst hefur mjög vel.

Annar möguleiki við að taka Macro-myndir við lítil ljósop er að nota flass. Það eru þó nokkur vandamál við notkun flass. Ef notað er “pop-up” flass á vélinni sjálfri þá er mikil hætta á að skuggi komi af linsunni þannig að neðri hluti myndarinnar er svartur (Gerðist alltaf á 500N vélinni minni). Til eru sérstök Macro flöss (sk. Ring flash) sem eru yfirleitt hringur sem festur er framan á linsuna. Þetta eru sniðugar græjur en gallin við þau er að þau eyða oft á tíðum öllum skuggum á myndinni þannig að lýsingin verður mjög ónáttúruleg. Af þessum sökum er ég nánast hættur að nota mitt. Best þykir mér að nota bara flassið sem maður festir á vélina. Flassið sem ég nota er Canon EX550 sem stendur það hátt upp af myndavélinni að linsan myndar ekki skugga. Sniðugt er að nota flass-snúru þannig að hægt er að færa flassið og fá þá jafnvel baklýsingu. Þetta er eitthvað sem ég mun prófa einhvern tíma.

Varðandi það að ná góðum Macro myndum þá hefur mér reynst best að fókusa á miðpunktinn í því sem ég vil hafa í fókus og síðan að ýta á DOF-takann til sjá hversu langt fram og aftur fókus-planið nær með vélina festa kyrfilega á þrífót. Síðan sný ég fókusnum aðeins fram og tek mynd og síðan aðeins aftur fyrir og tek mynd. Autofókus er algerlega gagnslaus í þessu því að myndavélin bara brunar fram og til baka og finnur oftast engan punkt til að fókusa.

Að lokum er einn sniðugur aukahlutur sem mig langar mikið í en hann er Anglefinder-C frá Canon. Þetta stykki er nokkurskonar framlenging a view-finderinn og getur stækkað myndina sem maður sér þannig að auðveldara er að fókusa. Einnig stendur þessi sjónpípa upp úr vélinni þannig að maður er ekki með nefið kramið upp við bakið á vélinni. Skal viðurkenna að þarna kemur skjárinn aftan á digital vélum í góðar þarfir.

Myndin af pöddunni var tekin á Canon EOS-3 með 100mm f/2.8 og ML3 Ring Flash. Ljósopið var sett á f/11 og hraðinn á 1/80 og vélin sá svo um að skammta ljósið með flassinu. Myndin er ekki valin sem gott dæmi um Macro myndatöku heldur vegna þess að hún sýnir þaðnn vanda sem við á að etja. Þannig sést að teppið bæði fyrir framan og aftan pödduna er ekki í fókus vegna þess hver grunnt planið er og einnig að miðpunkturinn eða öllu heldur mið línan í fókusplaninu er of framarlega þar sem að svæðið framan við pödduna er í fókus en afturendi pöddunar er úr fókus.

Vona ég að þið séuð einhvers fróðari um Macro eftir þetta greinarkorn.

Phoca

Ps. Þó að þetta miðist allt við Canon þá er hægt að fá sambærilegan búnað við Nikon og ábyggilega aðrar tegundir myndavéla.