Jæja, þá fer að styttast í árið 2004 og flugeldasýninguna sem landsmenn setja á laggirnar fyrir mann á hverju ári (ég hef sjaldnast eytt meira en 2-3 kalli í flugelda) Ég er alveg viss um að einhver af þarna úti hefur einhver góð ráð hvernig er best að mynda ósköpin, ég hef svosem lesið mig til um þetta á erlendum kokum eins og á www.photo.net, www.robgalbraith.com og www.dpreview.com en þetta er svo sérstök “flugeldasýning” hérna hjá okkur að mér finnst ágætt að fá smá “input” hjá íslendingum með reynslu.

Í fyrra var ég í fyrsta skipti að reyna taka myndir yfir áramótin og tókst það vægast sagt frekar illa til, ég tók rúmlega 150 myndir og það voru í mesta lagi 2 sem voru reyndar ekkert sérstakar, allavega ekki það góðar að ég færi að sýna þær. Ég prufaði flestallar stillingar þar sem ég var í raun í fyrsta skipti að taka myndir af flugeldum og mér fannst ljósopið F5.6 til F8 á ca 4-10 sek virka best, ég var reyndar að nota Velvia sem er eins og flestir vita ekkert rosalega ljósnæm (50 asa). Einnig var ég að taka á frekar víða linsu, flest skotin voru á 20-30 mm og það var reyndar stór hluti af vandanum ásamt því að ég var staddur uppi í perlu því ég hélt í einhverju bjartsýniskasti að ég næði ljósblossunum yfir allri borginni. Stór mistök, það var allt náttúrulega svart í efri og neðri hlutanum á rammanum, þær tvær myndir sem komu eitthvað almennilega út virkuðu semsagt best sem panorama myndir, en út af öllum reyknum þá virkar myndin einfaldlega skítug.

Í ár hinsvegar ætla ég að nota 10D sem ég augljóslega átti ekki síðustu áramót aðallega svo að ég geti séð hvernig lýsingin kemur út hjá mér strax og aðlagað mig að aðstæðum. Áður en einhver fer að kalla mig imbaljósmyndara þá vill ég bara benda viðkomandi á það að ég er aðallega landslagsljósmyndari og tek 99% af öllum myndum í dagsbirtu og hef ekki mikla reynslu af næturmyndatöku. Helst er ég að hugsa um að notast við iso 100-200 til þess að halda “noise” í lágmarki en ég er að reyna ákveða mig hvort ég eigi að nota Canon 28-70 2.8, Sigma 15-30 3.5-4.5 eða Canon 70-200 F4. Ég tek þær líklega allar með mér en ég reyni helst að halda mig frá því að vera alltaf að skipta um linsur, bæði tapar maður tíma sem gæti kostað mann þetta eina sanna skot og svo líka meira vesen að skipta um linsur í kulda og myrkri. Planið er allavega að reyna halda mig á bilinu F5.6-F11, taka á um 4-10 sekúndum og reyna finna mér einhvern flottari stað en öskjuhlíðina, allar uppástungur meira en velkomnar…