Það er kannski að bera í bakkafullan lækinn að skrifa svona pistil um valið milli þess að nota filmu eða “sensor” til að ná mynd. Ástæða þessara skrifa er sú að um daginn stóð ég frammi fyrir því að endurnýja Canon EOS-500 vélina sem ég hef nú vaxið uppúr og hér gef ég ástæðunar fyrir því að ég kaus filmu-body.

Auk fyrr nefnds body á ég dáldið af Canon linsum (ekkert Sigma eða þaðan af verra) 100mm 2.8 Macro, 50mm 1.4, 100-300mm USM og síðast en ekki síst 20mm 2.8 sem er í miklu uppáhaldi (+ eitthvert 28-80mm rusl sem fylgdi body-inu). Svo er í töskunni ML-3 Ring- og 550EX-flass. Þetta eru græjunar sem til eru og nú var spurningin um nýtt body. Skiljanlega kom þá bara Canon til greina og frekar myndi ég éta gler (linsur) en að kaupa eitthvað sem ekki er hægt að skipta um linsur á. Þannig að allar imba-vélar, hversu marga fítusa sem þær hafa, komu ekki til greina. Þar sem yfirdrátturinn var takmarkaður þá eftir nokkrar pælingar stóð valið á milli EOS-3 eða EOS-10D. EOS-300D minnti of mikið á 500N til að vera raunhæfur kostur.

Það skal tekið fram að ég held að digital-myndavélar muni verða allsráðandi og betri en filmu-vélar en að sama skapi held ég að allir séu sammála um að það er ekki staðan í dag. Þannig hafði EOS-10D í mínum huga þann galla að hafa þetta bölvaða 1.6-“ratio” sem tekur “wide” úr wideangle 20mm linsu, óheppilegt á þröngum stöðum. Sem auk þess þýðir að þú þarft betri linsu til að ná sömu skerpu og í 35mm (m.a. ástæðan fyrir því að large-format vélar þurfa ekki eins góðar linsur og 35mm). Þá hef ég ekki rekist á neitt sem bendir til að svona vél nái sömu litum og skerpu og Velvia 50asa. Einnig fannst mér 3200asa hámark frekar slappt vegna þess að ég hef gaman af að taka myndir á tónleikum með Ilford Delta 3200 ýtt upp í 6400. Vissulega koma kornóttar myndir en það þykir mér bara tilheyra. Hef ekki heyrt um að hægt sé að “push-a” sensorum :-).

EOS-3 getur allt sem að EOS-10D getur og má auk þess pumpa hana upp með mótor-drifi, frá 4.3 fps upp í 7 (ekki það að ég muni nokkurn tíma þurfa á slíku að halda). Auto-focusinn virkar vel en hef heyrt um að það sé vandamál með digital (kannski er búið að finna bót á því). Ætla ekki að fara útí að maður taki fleiri myndir með digital því persónulega held ég að það sé svoldið hollt að hugsa útí það hverju maður tekur mynd af í stað þess að taka “bíó-mynd” og velja svo einn ramma sem fyrir slysni varð góður.

Þá var einnig verðið á digital gripnum, EOS-10D kostar hér (ég bý ekki á klakanum) um 150 þús. en EOS-3 um 90 þús en ég gat fundið hana lítið notaða á 54 þús. Þrátt fyrir það sem ofan er talið þá voru þetta sterkustu rökin. Það munaði nærri 100 þús kalli og fyrir það má framkalla ansi margar filmur. Ég tek 80-90% á slides og hér kostar filma+framköllun og stafræn prentun á öllum myndum af 36-mynda filmu í 6x7.5 tommu stærð um 2000 kall (enn ódýrara að taka á negatívu). Þannig má framkalla rúmlega 50 filmur fyrir mismunin sem er líklega a.m.k. 2-3 ára forði minn. Eftir þennan tíma verður EOS-10D líklega orðin úrelt og þá verða komnar digital-vélar frá Canon með “fullframe sensor” sem ná Velvia og komast upp í “hellings” asa á mun viðráðanlegra verði (svipuðu og EOS-3 í dag). Þá mun ég íhuga það alvarlega að færa mig yfir en þangað til mun ég halda áfram að njóta þess að nota allt frá Velvia til Delta filma og ná áhugaverðum sjónarhornum með wideangle. Þannig að með orðum Tom Cruise í Interview With The Vampire segi ég um filmuna: “There is still some life in the old lady”.

Phoca

ps. Er samt að hugsa um að nota 100 þús kallinn upp í 100-400 F4 IS USM linsuna, framköllun verður þá áfram bara fórnarkostnaður :-)