Unninn út frá tveimur línum úr ljóði Vilborgar Dagbjartsdóttur, Ættjarðarást.


Við höfðum verið að lóna dögum saman
sá ekki til lands fyrir þokumollu


Öldurnar sváfu í logninu. Þögnin var ærandi.
Enginn mælti lengur orð af vörum nema ekki væri hjá því komist, og var honum þá svarað í eins atkvæðis orði, eða alls engu.
Sjálfum fannst mér ég ekki geta komið upp nokkru hljóði. Þokan fyllti lungu mín eins og sandur og sjávarsaltið sat fast í nösunum.
Á morgun, á morgun.
Heim.

Það brakaði í landganginum og álög síðustu daga voru rofin. Gleðitárin svifu á undan mér í land og ilmur heimahaganna kom til móts við mig, bauð mig velkominn og brosti hlýlega. Ég táraðist aftur við mjúkan mosailminn og fersk birkianganin yljaði mér um hjartarætur.
Eitt var það þó sem ég þráði öllu öðru fremur. Ekkert í heiminum var yndislegra en ilmurinn af kastaníubrúnu hári stúlkunnar minnar. Mig hafði dreymt hana hverja einustu nótt síðan skipið sigldi inn í þokuna. Og þarna stóð hún, yndislegri en nokkru sinni fyrr.
Augu hennar voru, líkt og mín eigin, full af sindrandi tárum.

Bara nokkur skref í viðbót.

- sollagulrot