Glugginn og ég
Auglit til auglits
Ég horfi út
Hann horfir á mig
Þar sem ég horfi í augu mín

Krossgata
Án burðarbita
Blasir við mér og ég stari áfram til topps
Angarnir teygja sig til beggja hliða
Bognir og beygðir
Mér líður eins og Kristi á krossinum

Eftir slitinni götunni
Til móts við mig
Liggja hvítar rendur
Þrengsli við miðju
Svo börnunum sé hætt
Svo teygist hún áfram
Endalaus

Enn lengra
Blasir við önnur krossgata
Eftir hlykkjóttri götu
Til móts við vit mín
Liggur eitthvað grænt með rautt þak
Langt og hverfur niður bratta brekku
Fátækrahverfi?

Þar gráta börnin eins og alls staðar
En hafa þau meira að gráta yfir
Þá skulu þau gráta meira og öskra hærra….HÆTTA!

Krossgötur, krossgötur..
Þetta er ein allsherjar krossfesting

Við næstu gatnamót eru alltaf aðrar krossgötur
Ég neglist við götuna við hvert skref sem ég stíg
Inn á nýja krossgötu

Má ég ekki bara sofa?

Inni í eldhúsi
Amma að elda
3 milljónustu máltíðina
Í lífi sínu
Fyrir alla aðra en sjálfa sig


Viltu gera mig svo óeigingjarna
Hver sem þú ert
Svo trausta…
Gerðu það

Má ég vera hraust og sterk
Ganga allar krossgötur
Sem eftir eru
Í þessu lífi
Án nagla

Áhyggjulaus
—–