Breytum við ekki öll um karakter eftir aðstæðum. Erum við ekki stundum ekki alveg við sjálf, högum okkur eins og aðstæður krefjast? Davíð Stefánsson frá Fagraskógi kemur hér með skemmtilega lýsingu á því hvernig aðstæður breyta hátterni okkar.


Ég vil benda á að uppsetningin hér er ekki eins og hún var upprunalega árið 1929 því hugi.is vill víst ekki leyfa mér að setja ljóðin upp eins og þau birtust upprunalega. En það er ljóðið sem gildir. Verði ykkur að góðu.


Mannlýsing

Það girnast allar meyjar mann,
og mér gekk vel að ná í hann.
Í fyrstu var hann fyrirmynd.
Það fanst mér þá. Er ástin blind?
En eftir nokkra sambúð sá
eg samt, hvað leyndist honum hjá.
Hann fór að skifta um skap og mál.
Hann skiftir oft um hjarta og sál,
úr einum ham í annan fer
og umskapast og breytir sér
á víxl í fífl og fant og þræl.

Og fíflið segir:
Hæ, komdu sæl.
viltu dansa við mig, viltu dansa við mig?
Þú ert drottningin mín, og eg tigna þig.
Þú lyftir mér hátt yfir syndir og sorg.
Sólin er lampi í minni borg,
himminhvolfið mitt hallarþak,
hver hljómur í lofti svanakvak,
eldur jarðar mitt arinbál,
úthafið sjálft mín þvottaskál.

Fíflið grætur og fer sinn veg,

en fanturinn segir:
Hér er eg
í nýju húsi, á neðstu hæð
og nú er það eg, sem öllu ræð.
Þarna er spánnýr stóll, þarna spónlagt skrín,
hér er spegill .. og sæng .. og þú ert mín.

Fanturinn hlær og felur sig.

Þá fyrst segir þrællinn:
Eg elska þig.
Eg skal liggja eins og rakki við þröskuld þinn
og þegja, viljirðu hleypa mér inn
stöku sinnum, er stjarna skín,
og strjúka á mér hárið, ástin mín.

Þrællinn mænir og færir sig fjær.

Fíflið vaknar og þokast nær,
en flýr á burt .. þegar fanturinn hlær.

- -

Eg skildi við manninn minn í gær.