Eitthvað hefur borið á undanförnu á því að skáld eigi erfitt með að heyra og fá fræðilega gagnrýni. Persónulega skil ég þann sið ekki alveg, en ekki ætla ég neitt að setja út á það. Það er jú undir hverjum og einum komið hvernig þeir taka þeirri gagnrýni sem er sett fram á þeirra ljóð.

Þegar ljóð er gagnrýnd; og hér nota að orðið gagnrýni í upprunalegri merkingu þess: að lesa vel, að rýna sér til gagns; þá kemur sitthvað í ljós hjá reyndum lesanda. Það er nefnilega munur á þeim sem eru að byrja að lesa ljóð og þeim sem hafa gert það í mörg ár. Þeir, sem hægt er að kalla reynda lesendur, sjá ýmislegt sem hinir óreyndari sjá ekki, hvort heldur sem það er jákvæðir eða neikvæðir hlutir.

Gagnrýni er hugsuð til að skáldið læri af okkar viðbrögðum og pælingum um ljóð þeirra. Svör eins og “ömurlegt”, “á korkinn”, “æðislegt”, “*snökt, snökt*” gera ósköp lítið fyrir skáldið, nema virka sem eins konar klapp á bakið, eða skot í hausinn. Hvers vegna að vera gagnrýna svona? Hvað græðir skáldið á þessu? Jú, sum skáld sýna ljóðin sín hérna bara til að fá klapp á bakið og það er góðra gjalda vert, en haldið þið virkilega að þannig verði maður betri?

Fræðileg gagnrýni gengur út á annað. Þá fjallar reyndur lesandi um hin ýmsu atriði; bragfræðileg, efnisleg eða myndræn; og dregur afstöðu sína af þeirri skoðun. Hér á huga.is/ljod hefur eitthvað verið gert af þessu, en því miður enn sem komið er aðeins af örfáum aðilum. Fræðileg gagnrýni er NB ekki hugsuð sem klapp á bakið eða skot í hausinn. Fræðileg gagnrýni er hugsuð til hjálpar þeim er yrkir. Svo skáldið sjái hvað það er, fræðilega séð, sem það gerir vel eða illa. Ef þessi fræðilega skoðun væri ekki fyrir hendi, væri erfitt fyrir nútímaskáld að bæta sig.

Spurningin er, hvort að allir vilji vera gagnrýndir á þennan hátt? Ég held, úr því að skáldin pósti ljóðin sín hérna, að flest hafi þau áhuga á því. Hvers vegna að pósta ljóðið sitt ef þú vilt ekki heyra hvað öðrum finnst? Hvers vegna að pósta ljóðið sitt ef þú vilt ekki heyra hvað þú gerir vel og hvað þú gerir illa?

Ég held, kæru skáld, að í stað þess að fara í vörn og láta eins og 6 ára krakki í nammibúð, þá væri skynsamlegra að hlýða aðeins eftir því sem þeir reyndu hafa að segja. Það leynist nenfilega af og til sannleikskorn í þeirra orðum. Skoðun líka ljóð annarra á eins fræðilegan hátt og okkur er mögulegt, ef við vitum hvað rím er, skoðum við rímið sérstaklega og gagnrýnum í það, ef við þekkjum myndhverfingar vel, þá gagnrýnum við í þær og svo koll af kolli.

Reynum að læra hvert að öðru. Annað er bara kjánalegt!