Ha, ha - nú sofna ég,
fyrst svona er dauðahljótt;
svo hitti ég í draumi
drottninguna í nótt.

Þá gef ég henni kórónu
úr klaka á höfði sér.
Hún skal fá að dansa
eins og drottningu ber.

Svo gef ég henni svarta slæðu
að sveipa um líkamann,
svo enginn geti séð,
að ég svívirti hann.

Svo gef ég henni helskó,
hitaða á rist,
og bind um hvíta hálsinn
bleikan þyrnikvist.

Svo rjóðra ég á brjóst hennar
úr blóði mínu kross
og kyssi hana í Jesú nafni
Júdasarkoss.

Svo dönsum við og dönsum
og drekkum eitrað vín.
… Ég verð konungur djöflanna,
hún drottningin mín.

-Davíð Stefánsson, Svartar fjaðrir, 1919.



Hvernig mynduð þið túlka þetta ljóð? Ég veit ekki alveg hvort ég eigi að lesa bara svikin við Jesú úr þessu eða hvort það sé verið að meina eitthvað annað með þessu?
:)