Það var einu sinni heimur sem angaði af lífi,
himininn var alltaf blár og aldrei sást í skýin.
Sigurópin ómuðu og allir voru kátir,
órökréttur óvinur var sár og virtist látinn.
Við skunduðum í friðarþægð og týndum saman blóm
í ósamstæðum sokkum og alltof stórum skóm.
Dalurinn var okkar, stór með gnægð af öllu
framandi hann hvíslaði ómótstæðilegar sögur.
Stundum hárin risu, stundum kassar féllu
þétt að hvorum öðrum og hlýjuðu strax vetur.
Aldrei var myrkur og oftast var birta
einsog allir á Íslandi ættu að vita.
Dalurinn var fagur svo allir fengu að skoða‘ann
og loks að því kom að einhver fór sér að voða
Í dalinn komu jarðskjálftar, sex stig á Richter
er ókunnugur maður réðst inn með sinn her.
Trömpuðu á gleymmérei í nafni óvinar
svo loksins skyggðu skýin og varmi sólar hvarf.
Ég leit til þín í sorg, tilveran var lúin,
sigurvíman horfin og lausnin orðin snúin,
höldumst hönd í hönd því heimurinn er búinn
andvana og andvaka, viðurinn er fúinn.