(Ég ætlaði að fara að búa til könnun um uppáhaldsskáld ykkar, en áttaði mig fljótt á því að möguleikarnir þyrftu að vera allt of margir :)

Gaman væri að vita, kæra á huga ljóðafólk, hver(t) ykkar uppáhaldsskáld er(u). Smárökstuðningur myndi aðeins gera gott betra.

Svo ég hefji leikinn skal ég greina frá því að mitt uppáhaldsskáld er Davíð Stefánsson frá Fagraskógi. Eitthvað við ljóðin hans tendrar innra með mér tilfinningar, sem annars liggja óhreyfðar. Það, sem mér helst finnst aðdáunarvert við kveðskap Davíðs, er hve mögnuð listaverk honum tekst að framkalla úr jafnlátlausu orðavali. Einskis annars skálds þekki ég verk, sem hafa þennan töfrakennda blæ. Vissulega hafa mörg skáld myndað magnþrungin listaverk í ljóðaformi - en til þess hafa þau þurft að brúka magnað orðkynngi íslensku tungunnar. Orðkynngi alls annars en látlausra og almennra orða. Auðvitað hafa líka mörg skáld skapað ljóðverk úr eintómum hversdagsorðum, almennum og látlausum, en fáum þeirra hefur tekist að gefa þeim ljóðum þann magnþrungna tón, sem Davíðs verk einkennir.

Endilega viðrið ykkar skoðanir.