Hér eru tveir textar sem ég samdi á liðnu ári. Annan þeirra hef ég melt í nokkra mánuði og er nokkuð sáttur en hinn seinni er á einhvers konar frumstigi.

Kjalarnes

I.
Hér er ég umkringdur af klettum og sjó,
háum fjöllum, sem vert væri' að klífa,
og kolsvörtum klettum, sem rísa úr hafinu.
Sólin er rifa á himninum
og lýsir upp forna hafið.

II.
Ég veit að hér búa hinir geðsjúku
og að þeir munu aldrei sleppa héðan.
Ég heyri enn kæfð öskur þeirra
bergmála frá tómu, hvítu göngunum
með glansandi gólfin.

III.
Akrarnir eru fylltir af aur og skít
og himinninn er myrkur.
Hræ svínanna fylla skurðina
og ég finn óþef ormafylltra iðra.
Hér ráða svínin og skíturinn ríkjum.

IV.
Ég sé mikla skepnu standa við mikinn klett
og ég dáist að einsemd hennar
er hún dáist að klettnum.
Hún hafnar einsemd sinni og dýrðlegri þjáningu,
hún fer og hún rotnar.

V.
Treglega, ég held áfram.
Frostið sker en ég stefni dýpra
því ég finn að hér á ég heima,
innan um hina geðsjúku, svínin og dýrðina.

—-

SJÁLFSVÍG

“He who is unable to live in society, or who has no need because he is sufficient for himself,
must be either a beast or a god.” - Aristotle

Miklu hef ég tapað
og lítið átti ég þó fyrir.
Mörg stríð háði ég
og miklir voru ósigrar mínir.
Ég barðist við djöfla mína
þar til hatur mitt var uppurið.
Ég féll og ligg því hér til að deyja
nema dauðinn vilji berjast.

Og er ég lá þarna óskaði ég þess
að ég gæti ælt minni rotnu, brotnu, svörtu sál
og að sálarlaust, bæklað form mitt myndi ráðast gegn sér og eyðast.
Minn hinsti vilji væri að vera gleymdur,
að viðbjóðsleg tilvist mín fyndist hvergi í minningum mannanna
og að eyðilegging hennar væri algjör.

Hér ligg ég enn,
sigraður og illa farinn,
lemstraður og laminn,
nær dauða en lífi.
Ég er máttvana í tómi hugsana minna
og ekkert kemst að nema að anda.
Ég anda því líkaminn þráir að lifa.

Í gegnum lokuð augu sé ég
að hér í algleyminu get ég lifað.
Ég hafna því einskis nýtum minningum mínum
sem hafa leitt mig hingað.
Ég hafna mannkyninu og mennsku minni
því án alls vits verð ég dýrið, skepnan, sem ég ætti að vera,
sem þráir ekkert annað en lífið og berst fyrir því!
Ég rís á fætur og stefni frá mannheimum
því víðáttumiklar sálir þurfa mikið pláss.
muuuu