Bráðum tekur alls kyns fólk að ferðast
í fjarskann, yfir ólguhaf og land,
og allt sem því finnst eftirtektarverðast,
það á eftir að festa á filmuband.

Bráðum tekur bjartan dag að lengja
og blossar gjarnan hin og þessi þrá
upp í hjörtum ungra telpna og drengja
og alls kyns kenndir fara brátt á stjá.

Bráðum tekur snjóinn líka að leysa
svo loksins fer að sjást í græna jörð.
Já, brátt mun sólin sumar endurreisa
og sætum geislum varpa um dal og fjörð.

Nú ljómar bráðum sól á sumarkvöldum
og söngvar vorsins efla allan þrótt.
Nú myndast bráðum vor úr vetri köldum
og veldur okkur yl og bjartri nótt.