Kvæði um Krist

Það var kvöld.
Og við sátum í garðinum,
tvö fátæk börn.
Og við horfðum á sólina
hverfa
bak við fjöllin
í fjarska.
Það er svo undarlegt, finnst manni
þegar maður er ungur,
að sólin skuli hverfa
af himninum
bak við fjarlæg fjöll.
Það er eins og framandi hönd
hafi hrifsað frá manni
leikföng manns.

Og við,
sem eygðum ei kvöldið
í öryggi hins sólhvíta dags,
sátum hljóðir og undrandi
andspænis svörtum vegg
sem við komumst ei yfir,
það var nóttin.

Og við sátum í garðinum,
tvö fátæk börn.
Það var þá
er þú sagðir mér leyndarmál þitt,
hið mikla leyndarmál
sem enginn hafði áður
haft vitneskju um.
Það var svo fagurt
og dularfullt,
það var fegursta leyndarmál heimsins.
Og við sátum og hvísluðum
hvor að öðrum
undarlegum,
vængjuðum orðum
um sólina,
sem myndi skína upp á himninum
stærri og bjartari
en nokkru sinni áður,
og um mennina,
sem yrðu svo góðir við börnin.
,,Og þá verða allir menn svo góðir,“
sagðir þú,
,,svo góðir,
eins og blómin.
Og þá þurfum við ekki framar
að hræðast myrkrið
því þá verður aldrei nótt
þegar búið er að frelsa heiminn.”

Og við sátum í garðinum
eitt kvöld
fyrir tvö þúsund árum,
tvö fátæk börn.

Steinn Steinarr
Langaði bara að setja það hérna.. mér fannst það bara svo fallegt:D