Vorljóð

Allt er ævintýri
um óttubil á vori:
ríða fáki hvítum
heiðagötur, æja
undir morgunsárið
heilsa glöðum lindum
lómatjörn í mýri
mófuglum á eggjum
(lóum, mýrispýtum
spóum) eða syndum
óðinshanasteggjum
Allt er ævintýri:
álftir brúðarljósum
lyfta hálsi úr sefi
hafa í gulu nefi
gæðaánamaðkar
(mátulegt að kyngja)
hefja flug og syngja
sólarljóðin ungu
(söm á hverri tungu
undir morgunsárið)
efst í grænum slakka
á alla vega lita
stirnir lend og makka,
melasólir loga
lýsa engjarósum,
regnlækur af stalli
steypir mjúkum boga,
gimbill er á fjalli
gefa honum bita
gróðurlaut og hjalli
Ljúft er mér að vita
lamb á þúfu minni
lambagrösin bíta
er ég hlýt að æja
allra hinsta sinni
kveðja fákinn hvíta
fagna eilfð þinni
eyjan góða á vegi
inn í morgunsárið
eyja góða á vegi
inn í ævintýrið.
Only God Can Judge Me