Einar Benediktsson fæddist 1864 á Elliðavatni. Þar bjó hann með foreldrum sínum og systkinum þar til foreldrar hans skildu. Móðir hans flutti til Reykjavíkur en Einar var eftir hjá föður sínum. Faðir hans var ráðinn sýslumaður Þingeyinga 1874 og flutti Einar með honum norður. Þar var Einar undirbúinn fyrir nám í Lærða skólanum. Þaðan lauk hann námi 1884 og fór sama sumar til náms í Kaupmannahöfn.
Einar hafði ungur veikst af sullaveiki sem háði honum mjög á meðan hann var við nám í danmörku. Oft lá hann svo vikum skipti í bælinu og varð ekkert úr verki.
Hann tók sér þriggja ára frí á Íslandi 1887 til þess að jafna sig af veikindum og sneri því næst til Kaupmannahafnar og lauk við lögfræðinámið. Hann útskrifaðist 1892 og starfaði sem aðstoðarmaður föður síns til ársins 1894. Einar flutti svo til Reykjavíkur þar sem hann vann við ýmis embættisstörf. Hann stofnaði fyrsta dagblað Íslands, Dagskrá, árið 1896, var sjálfur ritstjóri í tvö ár og skrifaði um stjórnmál, atvinnuvegi, bókmenntir og menningarmál af mikilli snilld. Hann var meðútgefandi Landvarnar 1902, sem kom út í aðeins 10 tölublöðum. Síðar gaf hann út Þjóðina (1914-1915) og ritstýrði henni og stofnaði og kostaði Þjóðstefnu (1916-1917) og Höfuðstaðinn (1916-1917). Árin 1905-1906 fékk hann Marconifélagið til að setja upp og starfrækja loftskeytastöð í Reykjavík. Árin 1908-1921 stundaði hann ýmsa fjármálastarfsemi og fór víða, m.a. dvaldist hann oft í Noregi, fyrst bjó hann í Edinborg, síðan í Kaupmannahöfn (1908-1910), þá í London (1910-1917) og svo aftur í Kaupmannahöfn (1917-1921), en kom heim á milli. Hann fluttist svo aftur heim til Íslands, þar sem hann bjó í Reykjavík næstu árin, þó svo að hann hafi oft verið langdvölum erlendis, m.a. í Þýzkalandi, á Spáni og í Norður-Afríku. Hann stofnaði The British North-Western Syndicate Ltd. (1910) og fossafélagið Titan (1914) með norskum fjárfestum. Eftir heimkomuna 1921 lét hann fara fram rannsóknir á námum í Miðdal, aðallega með málmvinnslu og sementsframleiðslu fyrir augum. Skáldskapur hans birtist í fimm bókum: Sögur og kvæði (1897), Hafblik (1906), Hrannir (1913), Vogar (1921) og Hvammar (1930). Einnig þýddi hann Pétur Gaut eftir Henrik Ibsen (1901). Önnur rit eftir Einar eru m.a. Nývaltýskan og landsréttindin (1902), Sannleiksgullkorn og fróðleiksmolar (1910), Stjórnarskrárbreytingin og ábyrgð alþingis (ritgerðasafn, 1915) og Thules Beboere (1918), en að auki birtust fjölmargar aðrar greinar eftir hann, sumar nafnlausar, í blöðum og tímaritum, þ.á.m. margar greinar um Grænland í Morgunblaðinu, Tímanum, Vísi og ýmsum tímaritum allan þriðja áratug aldarinnar. Úrval af óbundnu máli Einars er að finna í Laust mál I-II (1952) og Óbundið mál I-II (1980-1982). Einar bjó síðustu ár sín sem einbúi í Herdísarvík, nálægt Krýsuvík, þar til hann lést árið 1940.

Ljóð Einars.
Helstu viðfangsefni ljóða Einars eru lífsskoðun hans og lífsreynsla. Segja má einnig að hann sé það skáld sem hefur mótað sér sem sérstakastan og persónulegan stíl. Ekki er í raun hægt að segja að nokkuð skáld sé í raun líkt honum.
Einar Benediktsson telst til nýrómantískra skálda. Hans nýrómantík felst aðallega í ofurmennishugmyndinni, heimspekilegum pælingum, dulspeki og algyðistrú.Þessi atriði er að finna á mörgum stöðum í ljóðum hans.

Ofurmennið kemur sterkt fram í ljóði Einars um Egil Skallagrímsson.

Hann hreiðraði og unni veldi verðsins
sem vöðva síns arms, sem biti sverðins,
sem stríðsmerki lífsins, er benti og bauð
og batt saman efnin kvik og dauð.
Í gullbjarma sá hans glögga hyggja,
að gifta hins stærra er frelsi hins smærra,
að þúsunda líf þarf í eins manns auð,
eins og aldir þarf gimstein að byggja.

Heimspekilegar pælingar sem oft brjótast fram sem spakmæli er m.a. að finna í ljóðinu Einræður Starkaðar.

Eitt bros – getur dimmu í dagsljós breytt,
sem dropi breytir veig heillar skálar.
Þel getur snúist við atorð eitt.
Aðgát skal höfð í nærveru sálar.
Svo oft leyndist strengur í brjósti, sem brast
við biturt andsvar, gefið án saka.
Hve iðrar margt líf eitt augnakast,
sem aldrei verður tekið til baka.

Dulspeki, jafnt og myrkfælni sem háði honum frá barnsaldri er að finna í ljóðunum Hvarf séra Odds frá Miklabæ og Skúta-Hraun.
Í því fyrra setur Einar þjóðsögu/draugasögu fram í bundnu máli og er útkoman vægast sagt áhrifarík.
Reidd, sem til höggs, er höndin kreppt
hátt á lofti, önnur er heft
á bitrum, blikandi hnífi.
Þýtur í golu af þungum móð
þulin heiting. Svo mælti fljóð,
svikið, er svipti sig lífi:

“Svo illar hvíldir ég af þér fékk
og óhreinan hef ég setið bekk,
því ertu nú dauðadeigur. -
Þó svikir þú mig, skal orð mitt efnt,
mín er eftir þessa nóttu hefnt.
Séra Oddur, nú ertu feigur.”
Í því síðara fjallar Einar um hversu misvísandi myrkrið er og hversu auðvelt er að láta hræðsluna hlaupa með sig í gönur. Þar segir hann frá ferð sinni um Skútahraun í einni af embættisferðum sínum á vegum föður síns.
Blikna rindar. Röðli hallar.
Rökkvar að um drang og sprungur.
Reifast úfið risaklungur
rifnum stakki fyrstu mjallar.
Læt eg hægar, hægar lötra.
Hundrað raddir þögnin klæðir.
Fáleit grös í gjótum nötra,
gustur ólífs hrunið næðir.

Allt er töfrað, fellt í fjötra—–

Falda burstum rammir Hjallar.
Skyggni holar skútabungur,
skjálfa fortjöld kots og hallar.
Hlið eg slæ að huliðsbyggðum;
hrökkva lásar, blasa gluggar.
Furðulega í birtu brigðum
berast fyrir lífsins skuggar.
Fyllir sali forn og ungur,
falla grímur skrúðs og tötra.
Gnýr við rjáfur rymur þungur,
ryðjast háborð, skipast pallar.
hug mér stelur, starir, kallar
Steingjört fólk, með bundnar tungur.

Margt var sagt um Einar á með hann lifði. Oftast var þó rætt um hversu torskilin ljóðin hans voru. Það er rétt. En þó hafði Einar eitt fram yfir aðra samtímamenn sína. Það er valdið yfir forminu. Hann ætlaði sér alltaf að verða skáld og æfði sig að fylgja ákveðnu formi allt frá menntaskólaárum sínum. Að lokum hafði hann náð fullkomnu valdi yfir því. Yfir ljóðum hans liggur ljóðrænn þjóðernisandi sem var kenndur við aldamótaskáld. Einar hafði mikinn áhuga á og elskaði íslenska tungu og var hann mjög mótfallinn því að Íslendingar flyttu til Vesturheims því ahh vildi ekki að Íslendingar töpuðu máli sínu. Hann var líklega eini íslenski imperíalistinn því hann vildi að Ísland fengi yfirráð yfir gamalli nýlendu sinni, Grænlandi. Um þetta skrifaði hann margar greinar. Einnig orti hann ólafs rímu Grænlendings þar sem aðdáun hans á rímum kemur fram.

Eins og áður kom fram var Einar ekki líkur neinum nema sjálfum sér.
Hann hélt sig við sinn stíl og sitt ljóðaefni þrátt fyrir breytingar sem voru að verða á samfélaginu. Þ.e.a.s. hann var ekki snertur af félagslega raunsæinu sem þó svo margir tóku upp á sína arma. Þetta er gott dæmi um hversu sterk persóna Einar var. Hann hélt sig við bragarformið og lét ekki freistast af því að yrkja um það sem var orðið “vinsælt” á þeim tíma.

Einar var pólitískur hugsjónamaður, athafnamaður og skáld. Líkast til er hann eitt af þeim skáldum sem Ísland er hvað stoltast af að eiga.
Hann var fyrsti maðurinn sem var lagður í heiðursgrafreit á Þingvöllum, nú liggur hann þar ásamt Jónasi Hallgrímssyni.