Þetta er nú satt að segja hluti af svari mínu við eitthvað ljóð, og er því hægt að finna einnig hjá því (ég man ekki hvaða ljóði, enda er oft auðveldara að sjá mismun á einstökum stráum í heystakki en ljóðunum hér). Þar sem þetta á almennt við um ljóðagerð á þessari síðu þótti mér rétt að birta þetta einnig hér, þar sem það hverfur ekki í svartan sæ þunglyndisljóða á nokkrum tímum.

Mikið væri nú gaman ef að fólk myndi gera einhverjar kröfur til sjálfs síns þegar það yrkir ljóð, hvað varðar stíl, stafsetningu og efni. Venjulega er svo sem ekki vöntun á efni hjá þessum ljóðamaskínum sem spýta 6 ljóðum á dag inn á vefinn (og er þá oftast um að ræða þunglyndisleg harmakvæði, eða bögur um forboðna ást), en stórkostlega mikið vantar upp á stílbrögð og stafsetningu í langflestum tilvikum. Í stuttu máli er íslenskukunnátta þessa grunnskólafólks, sem hingað dælir hálfköruðum svartnættisórum sínum, venjulega svo bágborin að hvaða nýbúi sem er gæti skammast sín fyrir hana. Og þar við bætist síðan algjört og óskorað metnaðarleysi gagnvart íslenskum bragarreglum og ljóðformi.

Nú fara örugglega margir í skotstöðurnar og búa sig undir að koma með tuggðu lummuna um að “það er tilfinningin og tjáningin sem skipta höfuðmáli” og svo framvegis og svo framvegis. En það er fullkomin vanvirðing gagnvart ljóðforminu yfir höfuð að kalla þessar ambögur - sem fylgja hvorki reglum né stíl - ljóð. Ljóð eru bundið mál; mál sem er beitt ákveðnum stílbrögðum og bundið í skorður reglna. Hæfileikasnauð “skáld” sem ráða ekki við þessar reglur geta ekki breytt skilgreiningunni á ljóðum upp á sitt einsdæmi - þau ættu einfaldlega að snúa sér að einhverju öðru. Kaupið ykkur frekar ódýran gítar og farið að semja lélega vælutónlist til að finna þessum tilfinningum ykkar betri farveg.<br><br>

<b><font color=“#EFEFEF”>| ég hef tekið of stóran skammt af engu |</font></