dagur 0:
ligg ég hér brotinn í blóði og tætlum
brennandi sviðinn og get ekki andað
lögreglubíllinn við líkamann stendur
og líta þar mennirnir niður á mig…

furðunni lostinn ég get ekki hreyft mig
á götunni horfi ég á sól skína sterkt
blindast en get ekki lukt mínum brúnum
bilaður uns þeir loks færa mig brott…

í bílnum þeir reyna að senda mér stuð
sorgmæddir gefast þeir upp og hætta
brátt heyri ég rennilásinn renna hratt upp
ringlaður sé ég brátt alls staðar svart…

dagur 1
djöfulsins kuldi er nú kominn í mig
kall mitt á hjálp á vörunum hljóðnar
kyrrðin er kósí en fyrr má nú vera
kolruglaður veit ég ei hvað skal gera…

dagur 8
loksins kom einhver og leysti mig út
lúkkið hans reyndist mér furðulegt mjög
í sloppnum hann skellti mér hart á borð
sletti þá meikklessum hratt í feis mitt…

dagur 9
nú hefur mér hætt að lítast á blikuna
hefur mér verið fljótt komið í kistu
ég er ekki dauður þó hjarta mitt vanti
í huganum enn eru taugar sem hugsa…

dagur 10
förin til jarðar var mjög sæt og falleg
faðir minn felldi tár og ræddi um mig
það sem ég heyrði voru ýkjur og lygi
en það er í lagi því ég kem ekki aftur…

dagur 14
nú hef ég tíð eytt í líkkistu mjög lengi
ljúf er löng þögnin en einhæf í raun
ef þetta er tilveran sem tekur við af hinni
treginn mun magnast innan nokkurra daga…

dagur 59
augu mín sjá ei í þessu dökka svartamyrkri
svona djúpt undir niðri er heyrnin mín dræm
en samt get ég fundið fyrir krílunum koma
köngulóm, möðkum og lirfum gegnum mig…

dagur 246
nú hef ég ráðið í kenningar Einsteins
á svipstundu gæti ég þrautir allar leyst
hvað skal nú bralla að eilífu bundinn?
bilaður finn ég fyrir geðveikinni koma…
Náttúrubarn, landfræðinemi, veiðimaður, ljóðskáld og alls konar manneskja.