…stiginn sem liggur upp skýjanna bláma
orðin sem fjúka úr munninum ráma
krabbinn klípur fast í holdsveikt skinn
djöfullinn brosir og bíður þér inn
brjóstin hér blasa við fögur og stinn…

…myndirnar brenglast svo skrambi hratt
andlit þitt birtist mér litríkt og flatt
fiðringur firrist um maga minn sterkur
í höfði mér þægilegur seiðandi verkur
og augu mín rápa um kaldar eyðimerkur…

…tónlistin dýpkar og doðinn fljótt dafnar
draumur í vætunni myndríkur kafnar
allt hérna brosir við orðunum mínum
og setningar koma í aðskildum línum
er illska í glottum og aðfinnslum þínum?

…er illska í bitum og barsmíðum þínum?
…er illska í stungum og líflátum þínum?

…kaldur ég finn hvar ég hleyp um nakinn
ég vona að blóðslóð mín verði ei rakin
veggirnir hlæja og setja fyrir mig fætur
marinn ég dett niður í ræsisdrullurætur
svona líður mér flestallar föstudagsnætur…

…másandi ringlaður ég kemst í lítið skjól
langar samt meira heim í eigið litla ból
úr sálu minni víman er byrjuð að flýja
tekið við vont bragð og ælunnar klígja
milli vara minna lyktandi lekur þar spýja…

…staulast heim kaldur og blóðinu drifinn
veit að um tólf að ég verði á fætur rifinn
alkóhól í mixtúru með sýru og heróín
blandast ekki vel við aumt amfetamín
yfir sjálfum mér verkurinn hærra hann gýn…

…ég lofa guð: “aldrei aftur mun ég drekka”
segi það sannast með djúpsárum ekka
en veit það svo sjálfur að það er stór lygi
því til himnanna liggur hinn endalausi stigi…

…þangað verð ég að fara fyrr eða síðar
því ekki að stytta sér leiðina upp hlíðar…?
Náttúrubarn, landfræðinemi, veiðimaður, ljóðskáld og alls konar manneskja.