***Mjög langt ljóð - eiginlega smásaga með ljóðrænum lýsingum. Þið ráðið hvort þið lesið þetta… bara hugsanir mínar sem ég lét á netið***

-Alsjáandi blindingi-

Geng um strætið yfirfullt af fólki sem kann sér ekki hóf
Það ekur um á glæsikerrum, þó aldrei ánægt með líf sitt
Það vantar eitthvað upp á – eitthvað til að kóróna gleðina
Útlit ekki gott – kynlíf ekki gott – óánægja í starfi
Þetta fólk er sori – óreittur arfi

“Þegar líf manns er uppfullt af sorgum
minnkar meining í annarra orgum.”

Geng um strætið uppfullur af óhamingju stríðshrjáðra landa
Hef samúð með þeim litlu börnum sem deyja að óþörfu
Geng framhjá búðarglugga þar sem ég sé spegilmynd mína
Hár mitt er orðið of sítt – gleymi stríðinu – ég er ljótur
Veð inn á rakarastofuna skjótur.

“Úr fylgsninu stúlkan lágt stundi
er steininn fast á hana hrundi
hún barðist um lífvana brotin
brosti - hún heyrði á ný skotin.”

Heyri fréttirnar fljúga inn um annað eyrað og út um hitt
Sé fátæktina á strætunum – inn um annað augað – út um hitt
Einblíni í staðinn á spegilinn – er rakarinn að gera mistök?
Því hárið mitt verður að vera fínt – ég verð að vera sætur
Hætti að hugsa um styrjaldardætur.

“Stúlkan komst út en fljótt fönguð
fast við vegg nauðug sárþröngvuð
bak brjósta hennar stundi stór dátinn
bráðgraður heyrði ekki grátinn.”

Orð þessi hljóma í höfði mér sterk sem stálstaur
Og fylla mig ýmsum óvanalegum kenndum
Lít út yfir bólstraða stólana – Séð og Heyrt rit – út um gluggann
Sé ég þar standa fagra stelpu með gítar – tóman peningahatt
Mynd þessi kemur upp á mig flatt.

“Kefluð hún reyndi að æpa
í andliti náföl sem næpa
fljótt í mold niður fast barin
fagur líkaminn orðinn svo marinn.”

Stúlkan heldur áfram að syngja – greinilega blind
Ég veit ekki fyrr en ég stend þarna með henni
Ímynda mér hvernig tilfinningin er – að sjá ekki neitt
En sjá í raun svo margt…

“Í fjarskanum fast glumdu skotin
faðir hans týndi upp brotin
myndir af minningum – gleðiár
með brotunum komu fram tár.”

Eitt andartak gleymi ég hárinu – sköttunum – bílnum
tölvukaupaláninu – yfirdrættinum – símreikningnum
erfiðleikunum í hjónabandinu – eigin útlitsóhamingju
…öllu sem skipti mig svo miklu áður…

“Blóðrauður litaðist hvítur kraginn
í keng engdist matvana maginn…”

Hún stoppar og lítur á mig – sér mig ekki – sér mig samt
Hún sér innar í mig – vandamálin – mínu eigin langanir
Hvernig mér var sama um hana – hvernig mér var sama um allt
nema útlitið – eigið líf – peninga – að komast hátt í stigann…
…mála nafn mitt á velgengnisstrigann…

“Mér sjálfri var einu sinni sama um allt
sál mín og sinni var djöflinum falt
en daginn sem augu mín brugðust mér
um skoðun ég skipti – og syng nú hér”

Þessi lína hitti hjarta mitt – hvað ég lenti í því sama?
Yrði blindur og allslaus – fátækur sem þessi dama?
Ég fór brott og kökkurinn stakk sem beittir pennar
En ég breyttist smá – skildi eftir aur í hatti hennar.
Og úr fjarskanum heyrði ég sönginn svo óma:

“Ein lítil blind manneskja – getur öllu breytt
komið sýnum í fólk – sem sér aldrei neitt
því þó líf þess sé uppfullt af sorgum
má það aldrei gleyma – annarra orgum…”

-pardus-
Náttúrubarn, landfræðinemi, veiðimaður, ljóðskáld og alls konar manneskja.