Í hásölum skýjanna englarnir þagna
á hvítfleymið stór skugginn fellur
nú komin er stundin, endalok ragna
inn ríða morðingar, mellur.

Himnaríki breytist í Sódómu svarta
siðurinn breytist úr lofgjörð í fryggð
englarnir sáran í angist þeir kvarta
eldskýin ríða um Drottins byggð.

Skaparinn vaknar frá værasta blundi
vondur í skapinu stígur hann út
sem dillandi skottið á stressuðum hundi
sýpur hann kveljur og hrekkur í kút.



Brunnin er höllin sem áður var stærst
sót birtu í loftinu hylur
í illan hóp púkanna Satan senn fæst
svartur og kaldur sem bylur.

Blóðrauð nú litast strax himinn og haf
horfin er sól bak við skuggann
sokkið er Ríkið í gleymskunnar kaf
og hægt siglir svört næturduggan.

Að morgni til Himinn á endanum rís
englarnir Drottinn sinn hylla
prúðbúin sól heitum geislunum gýs
geislar sem jörð fagra gylla.



Þegar sól sekkur djúpt að kveldi
stríð rísa kraftmikil, óð
himinninn hylst rauðum feldi
hafið er dökkrautt sem blóð.

Hringrás hvern einasta dag
himnarnir breytast og hafið
sem fögur orð fullkomna brag
fast í lög er þetta grafið.


-pardus-

***Þetta ljóð er eiginlega svo djúpt og torskilið að ég held að fáir munu skilja það - endilega spyrjið þið! Þetta er meira svona “prufuljóð” - vildi prófa hvort ég næði rythmanum og stuðlunum réttum***
Náttúrubarn, landfræðinemi, veiðimaður, ljóðskáld og alls konar manneskja.