Að sjá spegilmynd mína í tárum þínum.
Að finna hjörtun slá í takt.
Að lesa tilfinningar úr augunum.
Að heyra hugsanir þínar um allt.

Sérhver stund með þér
er lítið skref í langri göngu.
Þú verður alltaf hluti af mér
og við förum saman í ferðina löngu.

——————-

Ég kafna í eigin lífi.
Raunveruleikinn rífur mig á hol
og svikin loforð stoppa hjarta mitt.
Sársaukinn og vonleysið
hafa hrifið sál mína brott.
Ég veit ekki hver ég er lengur.

Þreytan yfirtekur mig.
Þreytan á lífi mínu og þreytan á sjálfri mér.
Ég bíð eftir að lífsblómið fölni
og ég sigli mót sólinni, inn í ljúfa eilífðina,
sárin grói og ég fái hvíld.

——————-

Það er margt sem gerist
og margt sem gleymist.
Hugurinn missir oft völdin,
og flytur okkur á framandi staði.
Hugarheima.

Við fljótum með straumnum,
við bergmálum í dölunum.
Við vöxum með grasinu,
og njótum hvors annars,
í hugarheimum.

En brátt erum við hrifin á brott í raunveruleikann,
og við okkur blasa blekkingar umheimsins.
Lygar, svik og vonleysi.
Það er fljótt að gleymast,
það sem við gerðum saman.
Það sekkur dýpra í meðvitundina.
Það sekkur í iður umheimsins.
Það sem við gerðum saman…

…í Hugarheimum.