Hvaða rétt hafa ráðherrar til að gramsa í þessum málum?
Þeir reyna að leika guði til að ráða yfir sálum
Og drekkja í blindni öllum ósnortnum stöðum.
Heimsins náttúra á sér ekki yfirmann eða stjóra
Hún mun aldrei gefast upp og leggjast á fjóra
Hún hefnir sín ef við menn í græðgi hana sköðum.

Jarðskjálftar – eldgos – harmakvein og dauði
Munu ríða yfir okkur eftir sárafá ár.
Sólin – lífsgjafi alls og eldhnötturinn rauði
Mun falla og þá verður heimsendisfár!

Eins og litlir maurar á feisi snoppufríðs manns
Sem strax enda í mauki á húðinni hans
Munum við klessast á yfirborði jarðar.
Við gerum okkur ekki grein fyrir eigin smæð
Gráðug, ljót og aðeins millimetri á hæð
Sem örlítill skítur á haug heillar hjarðar.

Þegar ég hugsa til mannsins koma í huga mér krakkar
Hver og einn á milli stórra í leit að athygli flakkar
Maðurinn er eins í meginatriðum aumur.
Hoppum og skoppum og þykjumst svo stór
Drepum og sköðum og syndgum í kór
Fólk er aðeins klístraður ljótur flugnaflaumur.

Í fjarskanum heyri ég mjög djúpan hlátur
Sem berst í gegnum mengun læti og grátur
Þar er náttúran stödd í bið – megnug og sterk.
Reiddur til höggs þarna stendur hennar hnefi
Í augum hennar vissa og alls enginn efi
Í huga hennar vilji til að skapa okkur verk.

Hefnd hennar kemur eftir sárafá ár
Þá verður það við sem munum sleikja okkar sár
Eins og hún hefur horft upp á mengun og stríð
Er ég viss um að hefnd hennar verður ei blíð
Hún mun drekkja okkur í olíu, salti og ösku
Troða okkur niður í þrönga og litla flösku
Og selja okkur dýrunum sem pulsur og hakk
… þey! Ég heyri náttúruna fara á flakk.
Náttúrubarn, landfræðinemi, veiðimaður, ljóðskáld og alls konar manneskja.