Á grasinu hindir með hófaskellum þjóta
Fjöllin í kring með drunum þau hrjóta
Og ekkert getur raskað þeirra ró.
En maðurinn með sinn gáfaða heila
Kann ekki heimi með dýrum að deila
Miskunnarleysið heggur hvern skóg.

Virkjanir rísa sem holdið á gröðum
Á fögrum og friðlýstum skóglendisstöðum
Forstjórar orkunnar með leyfi upp á arminn.
Um lúkurnar sveittir þeir höndla seðla stóra
Og óhræddir með vaselín þeir fara á fætur fjóra
Láta græðgispúka - taka sig fast í þarminn.

Stjórnast af hvötum sem enginn maður fattar
Þessir gemlingar á hæðinni – eiginhagsmunapattar
Byggja sér höll þar sem syndirnar fæðast.
Ef samviskan fer að narta í þeirra gríðarmiklu fitu
Friðþægjast með skógrækt á stærð við hænsnaskitu
Flissandi og brosandi þeir undir lögin læðast.

Gemlingarnir á hæðinni – prakkarar með völd
Þeir skrifa upp á skemmdir hvert einasta kvöld
Þegar náttúran er dauð og þeir sjá eftir því
Er heimurinn hvort eð er löngu fyrir bí.



Á brekku einni nærri okkar fegurstu jökulám
Læðast gamlingjar með völd – djöflapúkar
Drepa alla náttúru – en banna svo sjálfir klám
Og sjáið þið til – það verða aðrir Kárahnjúkar.



Látum ekki stjórnast af fíflunum á hæðinni
Gerum okkar uppreisn – látum stýrast af bræðinni
Þegar karlar með okkar peninga - náttúruna myrða
Er komið að okkur til að standa upp og yrða
Mótmælum nauðgun á náttúrunnar yndi
Drekkjum allri mengun – í djúpu kviksyndi
Stöndum upp og öskrum í nafni náttúru og friðar
Sjáum þá hversu vel náttúrumorði miðar…

…uppreisnarþráin í hjarta mínu iðar.
Náttúrubarn, landfræðinemi, veiðimaður, ljóðskáld og alls konar manneskja.