Ég vissi ekki hvort þetta ætti betur við í ljóðum eða smásögum þannig að ég tek áhættuna og birti þetta hérna.

Einn daginn þegar ég vakna er rós við hliðina á mér
Rósin er óútsprungin og blóðrauð á lit
Ég veit að þetta er rósin mín.

Mig langar til að gefa rósina þeim sem mér er kærastur.
Ég geng af stað og í hvert sinn sem ég hugsa um hann
og rósina mína þá fyllist hjarta mitt gleði.

Ég mæti fullt af fólki sem vill aftra því
að ég gefi honum rósina en ég ýti þeim öllum frá mér
og held ótrauð áfram.

Þegar líður á daginn sé ég að rósin er að opna sig.
Blöðin blóðrauð en hvítur litur hreinleikans á
börmum rósablaðanna. Hjarta mitt springur af gleði.

Loks hitti ég þann sem er mér kærastur.
Ég brosi að honum og rétti honum rósina
- rósina mína.

Með augum áhugaleysis
tekur hann við rósinni
en í því brotnar knúbburinn af.

Ég sé blöðin visna og deyja í gruggugum polli.
Í angist minni krýp ég niður til að týna upp
rósarblöðin og geyma sem minningu um horfna gleði.