Jæja, þá eru nokkrir klukkutímar í próf, og fátt betur viðeigandi en að yrkja dálítinn prófasálm í tilefni af því. Til að reyna ekki of mikið á heilann fékk ég þó hugmynd og form að láni frá þessu snilldarjólalagi hér, sem gaman er að syngja kvæðið við:
http://grooveshark.com/#/s/N+Mega+J+lin+Koma+Fyrir+M+r/3OOvwD?src=5


Á fyrsta degi desembermánaðar
ég dreg fram bækurnar í fyrsta sinn
og óska að gæti aðeins lesið hraðar,
því óðar prófastressið nálgast finn.
Í gegnum lagakafla stóra stauta
og stöku nammibiti um varir fer.
Ég les um Sigurð Líndal væla og tauta,
ég les um kröfuhafa og skuldunauta.
Þá mega prófin koma fyrir mér.

Á öðrum degi desembermánaðar
dómasafn Hæstaréttar sæki ég.
Þar eru vangavelturnar til staðar
um vesenstilvik mörg lögfræðileg.
Ég staulast gegnum þessar þungu bækur
og þræði mörg alþjóðalagakver.
Um réttarbálka tifa létt sem lækur,
við lög um fasteignakaup dansa sprækur.
Þá mega prófin koma fyrir mér.

Á þriðja degi desembermánaðar
ég dríf mig oftast nær á bókasöfn.
Þar margur nemandinn í bókum blaðar
og blaðagreinar les um firmanöfn.
Ég fæ mér orkudrykk og dreg fram sæti
og dúsi þarna eins og vera ber
en margur nemandinn er frár á fæti
svo feiknar- skapast þarna jafnan -læti.
Samt mega prófin koma fyrir mér.

Á fjórða degi desembermánaðar
ég drepst úr leiðindum og fæ mér lúr
því lestrarpása lítil engan skaðar
svo lengi sem hún fer ei hófi úr.
Ég þreyttur ruglast æ á u-i og vaffi
og inn á facebook dáldið mikið fer.
Ég sötra appelsínudjús og kaffi
og set mér reglur - bind mig facebookstraffi.
Þá mega prófin koma fyrir mér.

Loks, daginn fyrir próf er pælt í þjófum
og passíft gegnum lagasafnið flett.
Ég skoða spurningar á gömlum prófum
og gef mér „five“ ef ég þeim svara rétt.
Ég sekk mér djúpt í þessi þungu fræði
og þykist ætla' að taka „allnighter“.
Það væri dásamlegt og algert æði
ef að ég prófum mínum flestum næði!
Þá mega þau sko koma fyrir mér.