Það er voðalega slæmt að maður skuli ekki ráða gangi himintungla. Einnig getur verið hvimleitt að hafa aldrei komið í sjónvarpið og orðið heimsfrægur.
Ég hef það nefnilega fyrir satt að heimsfrægðin geri fólki gott og sé álíka prýðileg og fálkaorðan sem fólki finnst gaman að láta hengja á sig. Nema kannski konum í mjög flegnum kjól.
Heimsfrægðin hefur yfirleitt líka ríkidæmi í för með sér og getur því fræga fólkið tekið á leigu einkaþjálfara sem lætur það fetta sig og bretta ef það þarf að grennast. Ef það þarf hins vegar að vitkast fer í verra.
Nú hafa fleiri megrunarkúrar en tölu verði á komið riðið yfir þjóðina. Þeir eru miklu fleiri en allar náttúruhamfarir aðrar til samans sem hrjáð hafa íslenska þjóð frá landnámsmorgni til þessa dags.
Kúrar þessir eru af ýmsum toga. Fyrir nokkrum árum var til dæmis öllum þjóðum heims boðið að taka þátt í megrunarkúr og að honum loknum áttu þátttakendur að verða eins í vextinum og Joan Collins sem er víst fræg leikkona. Sonur minn fór í kúrinn og leit að honum loknum út eins og hrífuskaft. Ég afþakkaði hins vegar gott boð og hélt áfram að vera í vextinum eins og olíutunna.
Af því að ég er orðinn talsvert gamall eru sérfræðingar í einhverju búnir að segja mér það hundraðsjötíuogeitthvaðþúsund sinnum að það skipti ekki máli hvernig maður líti út. Það séu þarmarnir og lifrin og nýrun sem skipti máli.
Manns innri maður, sem sagt.
Þetta á við ef menn ætla að fara að gifta sig. Ef menn ætla á hinn bóginn að reima skóna sína er betra að geta beygt sig. Þess vegna eyða líkamsræktarstöðvar nú miklum pappír og hljóðvökunum eins og þeir leggja sig í það að hvetja okkur til að stunda líkamsrækt. Nú sé rétti tíminn til að ná af sér aukakílóunum. Og ákafinn er svo mikill hjá auglýsendum að það er engu líkara en að öll þjóðin ætli að fara að reima skóna sína án árangurs.
Ekki efast ég um að það séu margir sem þurfi að ná af sér offitu. En ég hef dálitlar áhyggjur af því að sumir reyni að gera það meira af kappi en forsjá. Okkur hættir nefnilega til að taka hlutina of alvarlega og má því búast við að margir setji sig úr axlarliðnum þegar þeir fara að djöflast í líkamsræktinni. En samkvæmt auglýsingunum er hægt að gera það með afslætti. Þeir sem eru á mannmörgum vinnustað geta gert það með hópafslætti.
Gallinn við þetta allt saman er nefnilega sá að það kostar offjár að ná af sér rándýru jólasteikunum. Að vísu var einhver búinn að reikna það út um daginn að það kostaði ekki nema fimmtíukall á klukkutímann. En þá þurftu menn nú líka að setja sig úr axlarliðnum tíu sinnum á dag að minnsta kosti.
Ekki ætla ég að ráðleggja fólki neitt í þessum efnum. En ég hef sett mér langtímamarkmið sem er nauðsynlegt að mati þeirra sem vit hafa á því hvernig við eigum að vera í laginu. Ég ætla að vera búinn að ná af mér tvö hundruð og fimmtíu grömmum árið 2002 ef ég lifi svo lengi. Ef ekki má búast við að ég léttist ögn hraðar.