Barn spurði mig um daginn hvort grasalæknar læknuðu puntstrá og svoleiðis. Mér fannst spurningin skemmtileg en svarið var auðvitað eins gáfulegt og vísitala byggingarkostnaðar. Óskiljanlegt öllu venjulegu fólki. Og undu nú flestir glaðir við sitt á heimilinu.
Búið var að svara heimskulegri spurningu fávíslega eins og tíðkast nú til dags.
Til dæmis er stundum spurt á útvarpsstöð hvað faðir Egils Skallagrímssonar hafi heitið og hálf þjóðin hringir í fyrirspyrjandann og segir Hallveig Fróðadóttir og fær miða í bíó að launum. Drottinn blessi kennarastéttina.
Einu sinni ætlaði ég að svara auðveldri spurningu og fá hamborgara með öllu nema söluskatti en þegar ég náði sambandi við útvarpsstöðina var hún hætt að svara í símann um þetta efni og farin að spyrja hvað keisarinn í Kína héti.
En erindið við ykkur að þessu sinni var ekki að ræða um það hvort snarrótarpuntur gæti fengið kvef eða kíghósta heldur langaði mig til að minnast örlítið á útihátíðir sem eru jafnárviss viðburður og lokun deilda á sjúkrahúsum sem gerir það að verkum að fólk verður vinsamlegast að bíða með hjartaáfallið sitt fram í september þótt það megi fá tannpínu þegar því sýnist af því að hún flokkast ekki undir heilbrigðismál heldur málflutningsstofur sem senda mönnum vinsamleg bréf þar sem lofað er hertum innheimtuaðgerðum á yðar kostnað án frekari fyrirvara.

Þótt ég hafi lengi vel aðallega notað höfuðið á matmálstímum í baráttu við kartöfluuppskerubrest úr Flóanum langar mig sem sagt til að leggja nokkur orð í belg um útihátíðir. Ég verð þó að hafa örlítinn formála að máli mínu til öryggis.
Það er margt sem lífgar upp á mannlífið í skammdeginu. Um áramót getur maður lækkað hjá sér skattana ef maður kaupir til dæmis meirihlutann í álverinu í Straumsvík.
Eða gerist áskrifandi að ríkisvíxlum.
Þá fær maður senda peninga heim til sín í ágúst sem kallast skattafsláttur og maður getur fjárfest hann í göngunum undir Hvalfjörð sem sérfræðingar ætla að sjá til að leki ekki, guði sé lof. Hvernig þeir ætla að fara að því er flestum hins vegar hulin ráðgáta því að eins og allir vita er Atlantshafið dálítið blautt.

Í byrjun ágúst er hins vegar hægt að fara á útihátíð sem er ekki með inniföldum skattafslætti en aftur á móti er allt annað innifalið. Slæmt veður, ólæti, slagsmál, hnífstungur, drykkjuskapur, eiturlyfjaneysla, slæm umgengni, sóðaskapur, nauðganir og svo framvegis.
Það er með ólíkindum hvað hægt er að gera margt utanhúss.
Ekki dettur mér í hug að saka aðstandendur útihátíða um neitt sem að framan er talið. Það er heldur ekki þeim að kenna að hátíðargestir eyddu, að þeirra sögn, hundruðum milljóna á Akureyri í kaup á alls konar vörum og þjónustu.
Við foreldrarnir berum ábyrgð á afkvæmum okkar og eigum auðvitað hvorki að senda þau til Akureyrar né Vestmannaeyja á eigin vegum.
Að ári ætla Akureyringar að eigin sögn að halda sams konar hátíð og segjast hafa lært margt af þeirri sem nýlega er afstaðin.
Ég lærði bara eitt.
Um næstu verslunarmannhelgi verður vandamál okkar Reykvíkinga í annað sinn vandamál þeirra á Akureyri. Því ef marka má fréttir voru það börnin okkar sem létu öllum illum látum fyrir norðan.
Eða dettur nokkrum heilvita manni í hug að Akureyringur þurfi einhvern tímann að pissa?