líf og dauði eru tvö fyrirbæri sem gjarnan er talað um í
fjölskylduboðum námsbókum sjónvarpi útvarpi og á internetinu.
enginn veit fyrir víst af hverju við fæðumst inn í þessa
rugluðu fáranlegu ósanngjörnu veröld sem gleypir okkur í bernsku
og hrækir okkur svo út með sársaukafullum hætti í lokin.
margir hafa pælt í tilganginum fyrir sorginni eftirsjánni gleðinni
greddunni og þessari sífelldu endurnýjun á nýjum jarðarbúum.
enginn hefur komist að hinu rétta svari en engu að síður tel ég
mig hafa nálgast það á nokkuð skemmtilegan hátt fyrir skömmu.

guð er vissulega til og til að sanna það ætla ég að koma með nokkur
dæmi sem algjörlega er ómögulegt að véfengja og reyndar enn
ómögulegra að sanna með öllu.

guð er bóndi.

þegar við fæðumst erum við lítil korn á andliti plánetunnar sem
við köllum “jörð” [mismunandi eftir hinum aragrúa tungumála sem
til eru í heiminum en af sama indóevrópskastofni engu að síður].
guð tekur svo kornin [okkur] upp frá yfirborðinu - veðrar okkur
svo aðeins til í lífinu [leyfir okkur að þroskast og dafna] og
tekur okkur svo loks á endanum og lætur okkur aftur niður í
jörðina [það kallast “jarðarför” á okkar tungumáli en eitthvað
annað þarna uppi hjá honum].

þegar við höfum svo dvalið í jörðinni í þó nokkurn tíma þá hefur
moldin [áburður guðs] tekið upp í sig allt kjöt af beinunum okkar
og skilið eftir sig algjörlega einskisnýta beinagrind.
út frá kjötinu og áburðinum vaxa svo ávextir sem að lokum eru nýtt
sem kóngafæða uppi á himnum og englarnir þar gæða sér á þeim [og
auðvitað hinn drottnandi guð líka].

eftir að hinar guðlegu verur hafa kjamsað á aldinkjötinu þá taka
þeir upp bók og skrifa í hana athugasemdir um gæði ávaxtarins.

1. ef ávöxturinn bragðaðist vel þá mun persónan sem áður hvíldi
innan í korninu [nota bene: sem síðar varð að þessum ávexti] hljóta
ríkuleg laun og dvelja með englunum uppi á himnum.
2. ef ávöxturinn bragðaðist sæmilega en var engu að síður ekkert
sérstaklega góður á bragðið [eins konar hlutleysisbragð] þá fer
persónan niður til jarðar að nýju sem nýtt korn og fær þannig
annan möguleika til að sanna sig fyrir bragðlaukum Himnaríkis.
3. ef englarnir og guð kúgast á ávextinum og nánast æla honum út
úr sér er honum [eða bitanum sem eftir er réttara sagt] fleygt á
risastórt bál sem brennur í arinofni skýjanna [það útleggst “að
lenda í ”Helvíti“ á okkur tungu].

niðurstaðan er sem sagt þessi:
*guð er bóndi og við erum fæða hans.
*okkar tilgangur er að hljóta mikla reynslu í lífinu og þroskast
því og dafna eins og mögulegt er - ávöxturinn hlýtur því að verða
meyr undir tönn og bragðmikill líka [þá brosa englarnir skært og
skrifa góðar athugasemdir í bókina miklu]
*og loks má nefna að ávextir þeir sem við [”mannfólkið“ - ”kornin"
eða hvað nafn við höfum svo sem] borðum sjálf [epli - bananar og
appelsínur til að mynda] voru í raun upphaflega geimverur frá mars
- þar sem allir vita að þessir ávextir eru mjög gómsætir þá má
vissulega finna ástæðuna fyrir því að engar geimverur er lengur
til á plánetunni mars. við höfum einfaldlega skrifað of mikið af
lofyrðum um þá í bókina okkar og þeir hafa allir hlotið þau örlög
að koma hingað í sitt framhaldslíf.



þetta er nú allur tilgangur lífsins og nú vona ég ykkar vegna að
þið munið bragðast vel að lokum.


-pardus-
Náttúrubarn, landfræðinemi, veiðimaður, ljóðskáld og alls konar manneskja.