Kvikumolar þeytast frá kraumandi víti
klettar og önnur stórkostleg grýti
lenda svo hljóðir að mínum fótum.
Móðir vor minnir á sinn ógnarlega kraft
Markarfljót rautt rífur jökulsins haft
rífur með skóga niður að rótum.

Kvikan sem heima á djúpt í iðrum Jarðar
ólgar á fjöllum, harðar og harðar
svo dagur er myrkur, nóttin er rauð.
Sem maður stend ég agndofa, hræddur, hljóður
og himinninn ærslast, hávær, óður
uns skýin falla niður, þurr og dauð.

Öskrin frá eldinum mynda orð í eyrum
„ég gæti grandað þér, ó svo fleirum,
ef ég bara vildi, þú aumi maur!“
Gagnvart Móður finn ég smæð mína aukast enn
ég veit hún hefur tekið jörð og menn
og umbreytt þeim hratt í eðju og aur.

Ég geng til baka, svo auðmjúkur og snortinn
að baki mér eldurinn og sortinn
sem veröldin okkar er komin af.
Á sömu stund og Móðir sýnir blíðuhót
í öðrum löndum rignir niður grjót
meðan heilum þjóðum er sökkt á kaf.

Lífsins mikla ákvörðun er ekki okkar
og sinnar ýmsir, stjórnmálaflokkar
ekkert breytist, sama hvað þeir segi.
Þó garðar væru styrktir fyrir mikil fljót
fyndist Móður lítið um nokkur grjót
velur hvort ég lifi eða deyi.

Ég veit svo vel af smæð minni fyrir henni
minn búkur, mín sál, mitt geð, minn penni
ómerkileg í grund hennar falla.
Því bið ég þig mjög, mín Móðir, þessi kraftur
að láta mig sjá, aftur og aftur,
dýrð þína, ógn, fegurðina alla!



-Daníel Páll, ágúst 2010-
Náttúrubarn, landfræðinemi, veiðimaður, ljóðskáld og alls konar manneskja.