Gríp fast í haldreipi það sem býðst
hamingjan yfir einum atburði
yfirgnæfir allt annað…

…í stutta stund.

Allt dofnar í samanburði
gleði
sorg
minningar
og allt það sem áður fyllti minn huga…

…í stutta stund.

Þegar dagsbirtan smýgur inn um augu mín
þegar hversdagsleikinn
dregur upp venjulega mynd
af þeim raunveruleika sem bíður mín
handan við atburðinn
handan við gleðina
handan við brosið
vaknar hin venjubundna sorg af dvala…

…í langa stund.

Flýjandi undan óumflýjanlegum aðstæðum
uppi á fjöllum öllum fögrum
inni í sölum öllum glöðum
úti, hvar sem er
ég fæ þó ekki flúið hversu
bitur mín örlög eru í raun…

…í langa stund.

Ég bað frá barnæsku til Drottins
um betra líf, til mín og þeirra
sem ég elskaði hvað mest.
Ég bað
Ég bað stundum saman
hvert einasta kvöld
í fjölda ára
þar til raunveruleikinn
náði tökum á mér
og ég jafnaði mig á
blekkingunni…

…í alla stund.

Ég trúi ekki á Drottinn, Jesúm, Jahve, Allah, Óðinn
eða hverja þá aðra sem gætu gert lífið bærilegra.
Ég trúi ekki á sérhverjar þær skyndilausnir eða svör
eða hvert það töfrabragð sem gæti gert lífið bærilegra.
Hafi ég rangt fyrir mér
hafi ég rétt fyrir mér
hafi ég eitthvað fyrir mér
hvorki rétt né rangt
er ég dæmdur til eilífðarvistar
í lífi
dauða
lífi og dauða
lífi eða dauða
hvernig sem litið er
á hvert einasta tilvistarstig
og hvaða gleði sem um stundarkorn
færir bros á mínar varir
og þjónar einungis sem
skammgóður vermir
í ísköldum heimi
í funheitum heimi
í eilífum heimi
sem alltof lengi heldur mér í greipum sér…

…í alltof stutta stund.

…í alltof langa stund.

Þó ég vilji ekki missa af neinu
vil ég ekki finna fyrir meiru
af þessum brosmilda sársauka
sem gefur mér örlitla von…

…í alltof stutta stund.



-Danni-
Náttúrubarn, landfræðinemi, veiðimaður, ljóðskáld og alls konar manneskja.