Þegar ég var yngri
gengum við faðir minn
niður í fjöru.
Þar stóð lágreist, dökklitað hús
við sjóinn
og faðir minn benti á það og sagði:
,,Í þessu húsi er reimt”.

Mörgum árum seinna
eignaðist ég þetta hús.

Ómur löngu liðinna veislna og rifrilda
barst milli herbergja
eins og grátur ungbarns, -angurvær.

Ég bjó einn en var aldrei einmana.

Á óveðursnóttum
þegar saltrokið barði alla glugga og þak
fannst mér eins og að söngur, undurblíður,
liðaðist um hvern krók og kima hússins.

Dag einn,
stóð ég við gluggann
og horfði á sjóinn draga andann.
Þá gengu tveir menn, einn lítill og hinn stór,
meðfram fjörunni. Sá stærri benti þeim minni
á húsið og sagði:
,,Í þessu húsi er reimt”.