Ég horfi á mig
þar sem ég ligg sofandi.
Það stirnir af litríkum draumi
og glóir allt um kring.

Ég er allt og ekkert
í eitt augnablik og að eilífu.
Öldur óendanlegrar gleði og sársauka
skola yfir mig og silkiklæddar strendur mínar.

Hátt uppi í brúnleitum himni
sveima albatrossar og hrægammar.
Tré, sem hafa slitið rótum,
svífa milli himins og jarðar,
eins og tímalaust ljóð.

Gul, íhvolf ský
leka niður og snerta mig.
Rautt auga trónir efst á himninum
og sér yfir allt.

Þegar ég vakna
mun ég ekki vera viss
um hvort ég sé vaknaður.