Hafin enn og aftur próf -
endurtekin saga.
Nú fæst ég mest við meðalhóf
og meginreglur laga.

Glósur veð ég hátt í háls
og heftin gegnum malla.
Enda, skv. eðli máls,
ekki tækt að falla.

Mér er hvorki ljúft né létt
að lesa - og það í skyndi -
eina bók um eignarrétt
og aðra um veðréttindi.

Verst af öllu þó er það,
sem þyrfti helst að skána,
að þurfa að kunna utan að
alla stjórnarskrána.

Já, námið, það er bölvað baks
og basl, sem hjartað stingur.
Ó, ef ég gæti aðeins strax
orðið lögfræðingur.