Á hverjum morgni geng ég sömu leið í skólann.
Á hverjum morgni sé þig,
miðaldra konu,
skokka stíginn sem liggur við bókasafnið.
Þú ert alltaf þar á réttum tíma
Og þú ert alltaf
Í grænum buxum,
stuttermabol,
og með grænt hárband
Jafnvel á veturna
Þegar snjónum kyngir niður
og ég fer í tvær peysur undir úlpuna,
sé ég þig skokka
á stuttermabol.
Og sjaldan þeim sama tvisvar
Stundum stendur á þeim eitthvað fyndið
Og ég reyni að flissa ekki
Og stundum er mynd.
En núna um daginn stóð
“Samtök krabbameinssjúkra”
ég veitti því enga athygli
fyrr en þú varst farin að skokka hægar
og komin með bauga undir augun.
Þú hættir að koma með hárband
því hárið var allt farið af
og loks hættir þú að koma út að skokka
á stígnum við bókasafnið
og ég klippti minningagreinina um þig úr Mogganum.